mánudagur, 28. janúar 2008

Virðing og orðljótir pólitíkusar

Síðustu tvö ár fyrri ríkisstjórnar einkenndust af hörðum opinberum átökum þar sem stjórnmálamenn gripu oft til gífuryrða til að lýsa öðrum stjórnmálamönnum. Frá myndun núverandi ríkisstjórnar hefur þetta snarbreyst, enda vinna nú saman helstu andstæðingar fyrri ára.

Og viti menn - hægt og rólega hverfa gífuryrðin – og fágun alþingis „virðist“ batna, hægt og rólega.

Í vetur hafa gífuryrðin hins vegar haldið áfram – og heldur færst í aukanna – í borgarstjórn Reykjavíkur. Nánast daglega klifa (sumir) borgarfulltrúar á orðum eins og „blekkingar, klækjabrögð, baktjaldarmakk og reykfyllt bakherbergi“ – og snúa sér svo við og segja að nauðsynlegt sé að auka virðingu stjórnmála.


Ég legg til að þeir byrji á eigin orðavali – hvernig eigum við hin að trúa því að stjórnmálin séu virðingarverð þegar þeir sem þar eru tönglast á því gangstæða.

Hver skyldi vera orðljótasti stjórnmálamaðurinn um þessar mundir ?

laugardagur, 26. janúar 2008

Rífum ung ljót hús

Laugavegshúsin frægu - sem við borgarbúar höfum nú keypt sem um stórar glæsivillur á besta stað væri að ræða – hafa einungis unnið sér til frægðar að ná háum aldri. Útlit þeirra og ástand eða notkun s.l. áratugi skiptir ekki máli.

Ég legg því til að við leitum uppi ung ljót hús – sem nóg er af í borginni – og rífum þau sem fyrst svo koma megi í veg fyrir að þetta endurtaki sig síðar. Ekki er óhugsandi að þegar þau verða +100 ára, og við farin – að borgarfulltrúar þeirra tíma sjái sjarmann í aldrinum – þó að í okkar huga hafi þetta í rauninni verið hinir verstu kofar sem ekkert okkar vildi vita af.

Annars er Egill Helga með Laugavegshúsamálið á hreinu.

föstudagur, 25. janúar 2008

Þegar 50 verður 100

Það er alltaf gott þegar hlutabréfamarkaðir hætta að síga og byrja að reisa sig aftur – margir bíða sjálfsagt eftir því og líklega er stutt í það. En upplifunin verður hins vegar ekki sú sama fyrir alla.

Best verður þetta fyrir þá sem eru að kaupa um þessar mundir en þeir munu fara upp með vaxandi markaði og njóta ágætrar arðsemi reikna ég með á næstu árum.

Upplifunin er hins vegar allt önnur fyrir þá sem hafa átt – og eiga enn - hlutabréf frá því þau voru sem hæst í júlí s.l. sumar. Verðgildi þeirra hefur lækkað mikið – og sumra þeirra nálægt 50%!


Fyrir þá þarf markaðurinn að hækka um 100% áður en þeir byrja að njóta ávaxta - já, hann þarf að tvöfalda sig héðan af botninum til að hlutabréfaverð frá því í júlí s.l. nái sömu stöðu.


Ég reikna með að það taki ekki minna en 3 ár og líklega nær 5 til 7 árum.

Þolinmæðisverk sem sagt.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Ungir næmastir

Talað er um að ungliðar hafi staðið fyrir háværum mótmælum á pöllum ráðhússins í dag. Og fólk var misánægt með framgönguna og sumir gerðu lítið úr henni.

Þegar kanna á stöðu einhvers máls er almennt talið að réttasta myndin fáist með því að spyrja yngri kynslóðina (undir 25 eða 30 ára) af því hún sé ekki orðin samdauna ástandinu eins og þeir sem eldri eru.

Ætti kannski að hlusta meira á þetta fólk – sér það hlutina í réttlátara ljósi en við hin - eða eru þetta bara skrílslæti frekra ungliða?

Sama reiðin og sárindin en ..

Einlæg reiði og sárindi voru borin fram með þunga - af brúnaþungum borgarfulltrúum - af fulltrúum fyrri meirihluta við borgarstjórnarskiptin í dag.

Einurðin er augljós - og reiðin við það að verða stjórnlaus. Gífuryrðin notuð og ekkert til sparað, enda virðist fólkinu misboðið.

Þessi lýsing hefði einnig átt vel við í október s.l. þegar fyrri meirihlutinn sprakk. En þá voru sárindin og reiðin sjálfstæðismanna. Að öðru leyti er hamagangur borgarfulltrúanna líkur.

Helsti munurinn virðist vera á skipulagi ungliðahreyfinganna - þar virðast sjálfstæðismenn annað hvort vilja annan stíl - eða hreinlega vera eftirbátar vinstri flokkanna.

Vaxandi Dagur

Ræða Dags B Eggertssonar í borgarstjórn áðan sýndi glöggt hve vel hann hefur stigið upp og vaxið sem leiðtogaefni í borginni - yfirvegaður og beinskeittur fjallaði hann um meirihlutaskiptin í stærra samhengi en um hann sjálfan eða flokk hans - þ.e. út frá grundvallaratriðum.

Hef ekki alltaf verið sannfærður - en sá Dagur sem talaði í dag er klárlega vaxandi.

TIL SKAMMAR !

"Saving-Iceland-aðferðir" ungliða í vinstri-hreyfingunni á pöllum borgarstjórnar í hádeginu er til skammar og hjálpar ekki þessum annars ágæta málstað þeirra.

Sorglega misskilin aðferð.

Guð hjálpi framsókn

Eina leiðtogaefni framsóknar sem líklegt var til að vinna flokkinn upp úr lægðinni yfirgefur nú skútuna - undan öfundarágangi eigin fólks.

Björn Ingi gerir það rétta í stöðunni þó það sé kannski ekki það auðveldasta.

Guðni Ágústsson hefði mátt sýna sambærilega takta þegar orrahríðin "samherjans" hófst í fjölmiðlun - í stað þess að kalla þetta "persónuleg átök" - hann valdi auðveldustu leiðina.

Líklega varð það Birni Inga erfiðast hve skjótan frama hann náði innan flokksins - þeir sem höfðu verið þar fyrir lengur - án árangurs - hafa aldrei geta sætt sig við það.

Til hamingju Björn Ingi - Guð hjálpi framsókn, og ekki veitir af.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Taktleysi Ólafs

Markmið stjórnmálamanna er að komast til valda svo þeir geti hrint stefnumálum sínum í framkvæmd.

Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni tókst það með ótrúlegum hætti á dögunum – taktleysi Ólafs F. Magnússonar gæti hins vegar gert þetta að máttlausum valdatíma sjálfstæðismanna i borginni.

Ólafur virðist hafa samið við sjálfstæðismenn um meirihlutasamstarf sem einræðisherra og án nokkurs samráðs við sitt fólk. Hann virðist vera einn – aleinn!

Sé það raunin verður nýji meirihlutinn að æfa vel málamiðlunargírinn – eigi að koma einhverjum málum áleiðis – nema að það verði raunin, ekkert gerist, algjör stöðnun.

Þá er ég hræddur um að næstu kosningar verði sjálfstæðismönnum í borginni erfiðar – en Villi verður auðvitað farinn þá - svo kannski er honum alveg sama.

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Sprengdi Margrét meirihlutann?

Meirihluti í pólitík springur aldrei „af því bara“ – fyrir því eru alltaf ástæður. Þegar nýr meirihluta myndast núna á viðsnúningi F-listans er rétt að spyrja sig hvað hafi breyst frá því að F-listinn, að því er virtist, leiddi myndun fyrri meirihluta.

Jú, eitt breyttist klárlega - Ólafur kom í vinnuna.

Og kannski sá hann þar manneskju sem var mun fyrirferðarmeiri en hann gat sætt sig við og var kannski búin að ganga frá fullmörgum málum án Ólafs – já, kannski var bara of erfitt að sjá Margréti þarna.

Ólafur var kannski ekki eins mikill Guðfaðir „gamla“ meirihlutans og talað var um og kannski sagði Margrét (það var einmitt hún sem sagði það) Ólaf hafa verið Guðfaðirinn fyrir kurteisissakir, eins og stundum er gert þegar fólk er ekki haft með í ráðum en hefði í raun átt að vera með í ráðum.

Sprengdi Margrét því í raun „gamla“ meirihlutann með því að ofurselja heilindi hans – byggða á samstarfi fólks sem varla getur talað saman?

mánudagur, 21. janúar 2008

Ómögulega Comebackið

Ég – líklega ásamt flestum öðrum – var búinn að afskrifa pólitískan feril Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Maður sem tapaði borginni á fáum mánuðum eftir langa bið virtist verða að skammaryrði í pólitíkinni – fáir vildu af honum vita og allir reiknuðu með hljóðlátu pólitísku andláti þótt maðurinn sjálfur héldi öðru fram.

Auðvitað var það stórsnjallt að sækja á veikasta hlekkinn í „gamla“ meirihlutanum – nema hvað.

Það eru engir venjulegir stjórnmálamenn sem koma svona til baka eins og Villi – og ég efast um að aðrir eigi eftir að leika þetta eftir.

Til hamingju með ómögulega combackið Vilhjálmur – vel gert!

sunnudagur, 20. janúar 2008

Rétt hjá Birni Inga

Í einstöku viðtali í Silfri Egils áðan spjallaði Egill við Guðjón Ólaf Jónsson, fyrrverandi þingmann framsóknar. Viðtalið byrjaði á umræðum um saklausa áramóta- og þakkarkveðju til flokksmanna en endaði í beinskeittu persónulegu uppgjöri við Björn Inga Hrafnsson borgarfulltrúa flokksins.

Ekki hef ég séð jafn veiklundaðan einstakling í sjónvarpsviðtali síðan ég sá Jónínu Ben í Kastljósi fyrir nokkru, þar sem hún allt að því brotnaði saman af því allir voru svo vondir við hana. Á köflum átti ég hreinlega von á því sama hjá Guðjóni – og ég er ekki frá því að Egill Helga hafi líka átt von á öllu. Mér fannst jafnvel glitta í netta tilraun Egils til að stoppa Guðjón – það er aldrei gaman að verða vitni að svona sjálfsmorði. Ég veit ekki af hverju þokkalega greindur drengur eins og Guðjón lætur plata sig út í svona viðtal.

Og hvert var aðalumkvörtunarefni Guðjóns. Jú, að Björn Ingi skyldi beita sér í samkeppni við Guðjón Ólaf um pólitískan frama fyrir sig. Getur einhver bent mér á pólitískan leiðtoga sem ekki hefur gert það. Hvað næst – kemur Össur í viðtal og grenjar yfir Ingibjörgu (sem er meira að segja tengd honum) af því hún talaði allstaðar um að miklu betra væri að velja sig en ekki Össur.

Það kallast pólitísk samkeppni innan flokka en eftir hana snýr fólk oftast bökum saman og fer að kljást við hina flokkana. Flestum flokkum tekst það – framsókn hefur hins vegar átt í vandræðum með það – líklega vegna skorts á leiðtoga til að halda hópnum saman.

Eftir viðtalið er það auðvitað alveg augljóst að Guðjón var bara að senda kurteislegt þakkarbréf til flokksmanna framsóknar og á engan hátt að bera út gróusögur – nefnilega!

Það er rétt hjá Birni Inga að íhuga að yfirgefa sundurlausu meðalmennskuna – betri árangur næst í samheldnum litlum hópi en stórum sundurlausum hópi. Það gildir um flokka, fyrirtæki og íþróttalið.

Nú verður gaman að sjá viðbrögð Guðna – hvað skyldi Davíð Oddsson hafa gert ef svona staða hefði komið upp í hans tíð?

föstudagur, 18. janúar 2008

Burt með draslið.

Nú er maður að orðinn þreyttur á fréttum af erlendum aðilum sem koma hingað og berja lögreglumenn, nauðga konum ... já, og haga sér eins og við séum eitthvað til að troða á.

Landar þeirra hljóta að skammast sín og hörfa í gaupnir sér – ég efast t.d. um að margir Litháar gangi hnarreistir um Ísland með það þjóðerni á vörum sér þegar sori þeirrar þjóðar hefur minnt á vanþroska sinn.

Og hvað með þessa svokölluðu byggingaraðila, sem flytja óeðlin inn – eiga þeir ekki að bera einhverja ábyrgð?

Hvar er eiginlega beinið í þjóðinni – í stjórnvöldum – það virtist ekki skorta á beinið þegar verið var að eltast við nokkra vísa reikninga Jóns Ásgeirs – þá var krafturinn til og milljörðum varið í að hrekja þennan "hættulega" mann úr koti sínu. Er enginn til í að vakna?

Og á meðan þetta veður yfir okkur – og lögreglumenn berjast, að því er virðist einir (ekki er löggjafinn a.m.k. með þeim í liði), rífumst við um hvort sonur forstöðumanns opinberar stofnunar verði dómari út í landi – já, forgangsröðunin í lagi.

Sýnum nú úr hverju við erum gerð – við gátum það fyrir fiskinn (þorskastríðið) .. gerum það nú af myndarskap fyrir fólkið í landinu – og góða innflytjendur.

Hvar er metnaðurinn og krafturinn ?

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Tækifæri verkalýðshreyfingarinnar ?

Stundum hefur manni fundist jafnvægi óttans ríkja á vinnumarkaðunum – ekki síst þegar rætt er um að stíga einhver alvöru skref til að bæta stöðu þeirra sem verst eru settir.

Jafnvægið einkennist af því að enginn þorir að gera neitt til að rugga stöðugleikanum góða – og óttinn er við útmálaðar afleiðingar ef einhver skref eru stigin úr rammanum sem við erum í. Það merkilega er, að þrátt fyrir hógværð og undirgefni verkalýðshreyfingarinnar undanfarin ár – í þágu stöðugleikans – þá hefur enginn stöðugleiki verið hér í nokkur misseri – og dugar þá ekki annað en að hugsa til verðbólgunnar (+7%) og vaxtanna.

Þessir tveir höfuðmælikvarðar stöðugleikans hafa gefið óstöðugleika til kynna í langan tíma.

Nú er atvinnulífið í lægð – eða kannski ekki rétt að segja lægð, mörg félög er í góðum rekstri en staðan er viðkvæm. Þegar fyrirtækin voru sterk og full sjálfstrausts fannst manni eins og orð verkalýðshreyfingarinnar hefði engin áhrif – fyrirtækin voru með völdin.

Ef ég væri verkalýðshreyfing og mitt meginmarkmið væri að bæta kjör þeirra lægst launuðu – já, þá myndi ég jafnvel velta fyrir mér hvort ekki væri lag einmitt núna til að sýna hörku – jafnvel allt að því að dusta rikið af verkfallsvopninu góða. Fyrirtækin vilja það síst af öllu núna – og ekki nýja ríkisstjórnin.

Það væri að vísu ekki gott fyrir stöðugleikann – en hann getur varla versnað mikið – og óstöðugleikinn undanfarið hefur ekki auðveldað líf þeirra allra verst settu – þrátt fyrir undirgefnina góðu. Og ekki olli sá hópur vandanum, svo mikið er víst.

Já, hefur verkalýðshreyfingin þann kjark sem þarf til að standa í baráttu misskiptingarinnar ?

Áskorun

Fátt er virðingarmeira en fólk sem tekur ábyrgð á eigin mistökum og hvorki felur þau né veltir afleiðingum þeirra yfir á aðra.


Nú hefur Húsafriðunarnefnd lagt til við menntamálaráðherra að húsin við Laugaveg 4 til 6 verði friðuð. Þegar fjallað var formlega um framtíð húsanna á sínum tíma fékk Húsafriðunarnefnd tækifæri til að gera þetta að tillögu sinni en gerði ekki. Í lok þess ferlis fengu síðan eignaraðilar húsanna öll tilskilin leyfi til að rífa húsin og byggja ný.


Nefndinni hefði verið nær nú að gangast við og taka ábyrgð á eigin mistökum – ef það voru þá mistök – að gera ekki þessa tillögu þegar hún var með málið í formlegri afgreiðslu á sínum tíma. Nei, teikningar af þeim húsum sem byggja á í staðinn kalla á friðun þessara húsa og afleiðingarnar lenda á eigendum húsanna, sem þó voru með öll leyfi – nú eða okkur skattborgurum ef til skaðabóta kemur.


Það er rétt að skora á menntamálaráðherra að hafna tillögu nefndarinnar og halda þannig bæði mistökum þessa máls og afleiðingum þeirra innan opinbera kerfisins – ég er ekki viss um að mikill söknuður verði af blessuðum húsunum.


Svo skilur maður ekki í hvaða leiðangri Dagur borgarstjóri var þegar hann nánast stekkur fram fyrir niðurrifsgröfuna og kemur þessu öllu af stað. Er þetta stíll nýja meirihlutans – óútreiknanlegar ákvarðanir ofan í fyrri ákvarðanir?

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Sigurður Kári úti á túni

Í kastljósinu í kvöld lét Siguður Kári alþingismaður plata sig til að verja enn eina skírteinisráðninguna.

Ég sem hélt að Sigurður Kári væri sjálfstæðari og metnaðarfyllri en svo að færa það á borð fyrir þokkalega vel menntaða og upplýsta þjóð að ein af augljósari skírteinisráðningum síðari ára – sé það ekki og sé bara eðlileg.

Best væri að við hættum hráskinnaleiknum og ráðandi öfl fengju að ráða þá sem þeir vilja til að framfylgja sínum stefnumálum, sem í raun er kannski ekki svo vitlaust þegar að er gáð – en yrðu að taka þá með sér þegar þeir fara frá völdum.

Annars er maður alltaf jafn undrandi á að sjá vel menntað og reynslumikið fólk henda fram umsóknum í feitustu bitana – og verða svo hissa á því að fá ekki starfið.

Ráðningar í feitu bitana hjá hinu opinbera hafa því miður alltaf verið með þessum blænum – þó það sé auðvitað ekki alggilt – en það vekur gjarnan athygli þegar ráðamaður skipar í starf einhvern utan eigin flokks og fjölmiðlar og aðrir pólitíkusar keppast við að hrósa því sem því miður alltof sjaldan gerist.

Og hér virðist það vera aukaatriði hver flokkurinn er.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Stal Te og Kaffi Súfistanum ?

Nú er búið að loka Súfistanum á Laugavegi (fyrir ofan Mál og Menningu). Þar með lokar fyrsta bókakaffihúsið á Íslandi og eitt af vinsælustu kaffihúsum á landinu. Auðvitað koma kaffihús og fara og við því er lítið að gera. Í þessu tilfelli er hins vegar ekki um neitt slíkt að ræða heldur er einn af helstu keppinautum hans að reka hann út svo hann geti sjálfur verið þar með kaffihús.

Já, Súfistinn vildi ekki fara og ekki keypti húsráðandinn (Penninn) reksturinn, heldur var leigusamningi hans bara sagt upp – og það í þeim tilgangi að koma Te og Kaffi fyrir!

Te og Kaffi fær því eina bestu kaffihúsastaðsetningu landsins – sem Súfistinn hefur skapað – og Súfistinn virðist ekkert fá fyrir sinn snúð – hent út með leyfi hæstaréttar. Annað hvort er hæstiréttur að gera mistök eða að lagaumhverfi (réttindi) leigutaka í rekstri er meingallað. Ég er viss um að við þurfum að fara ansi langt – landfræðilega – til að finna svona meðferð á leigjendum.

Og þetta gerist þrátt fyrir að Súfistinn hafi verið með gildan leigusamning til 2013 (gerður 2003). Og meira að segja eftir þann tíma ætti almenna reglan að vera sú að vilji leigjandinn vera áfram með sama rekstur þá verði leigusalinn að leigja honum áfram – ekki nema að taka eigi húsnæðið til annarra nota eða leigusamningur hafi ekki verið virtur. Ástæðan er einföld. Hluti af verðmæti kaffihúsa er staðsetningin enda segir sig sjálft að t.d. Sólon væri mun verðminna ef það yrði flutt í Kópavog. Auðvitað hefði Penninn átt að kaupa Súfistann – þó ekki væri nema samkvæmt verðmati óháðs aðila. Annað er bara þjófnaður!

Og auðvitað hefur þetta ekkert með það að gera að Penninn á Te og Kaffi. Og það er auðvitað bara hrein tilviljun líka að Penninn segir leigusamningi Súfistans upp í september 2006 – og kaupir í Te og Kaffi í september 2006.

Nú er bara að vona að húseigendum Kaffitárs og Sólon í Bankastræti – nú eða Cafe París í Austurstræti - detti ekki í hug að henda leigjendum sínum út, mála, skipta um innréttingar kannski og opna svo aftur sitt eigið kaffihús. Þau virðast nefnilega geta það – og þetta eru flottar staðsetningar.