sunnudagur, 20. janúar 2008

Rétt hjá Birni Inga

Í einstöku viðtali í Silfri Egils áðan spjallaði Egill við Guðjón Ólaf Jónsson, fyrrverandi þingmann framsóknar. Viðtalið byrjaði á umræðum um saklausa áramóta- og þakkarkveðju til flokksmanna en endaði í beinskeittu persónulegu uppgjöri við Björn Inga Hrafnsson borgarfulltrúa flokksins.

Ekki hef ég séð jafn veiklundaðan einstakling í sjónvarpsviðtali síðan ég sá Jónínu Ben í Kastljósi fyrir nokkru, þar sem hún allt að því brotnaði saman af því allir voru svo vondir við hana. Á köflum átti ég hreinlega von á því sama hjá Guðjóni – og ég er ekki frá því að Egill Helga hafi líka átt von á öllu. Mér fannst jafnvel glitta í netta tilraun Egils til að stoppa Guðjón – það er aldrei gaman að verða vitni að svona sjálfsmorði. Ég veit ekki af hverju þokkalega greindur drengur eins og Guðjón lætur plata sig út í svona viðtal.

Og hvert var aðalumkvörtunarefni Guðjóns. Jú, að Björn Ingi skyldi beita sér í samkeppni við Guðjón Ólaf um pólitískan frama fyrir sig. Getur einhver bent mér á pólitískan leiðtoga sem ekki hefur gert það. Hvað næst – kemur Össur í viðtal og grenjar yfir Ingibjörgu (sem er meira að segja tengd honum) af því hún talaði allstaðar um að miklu betra væri að velja sig en ekki Össur.

Það kallast pólitísk samkeppni innan flokka en eftir hana snýr fólk oftast bökum saman og fer að kljást við hina flokkana. Flestum flokkum tekst það – framsókn hefur hins vegar átt í vandræðum með það – líklega vegna skorts á leiðtoga til að halda hópnum saman.

Eftir viðtalið er það auðvitað alveg augljóst að Guðjón var bara að senda kurteislegt þakkarbréf til flokksmanna framsóknar og á engan hátt að bera út gróusögur – nefnilega!

Það er rétt hjá Birni Inga að íhuga að yfirgefa sundurlausu meðalmennskuna – betri árangur næst í samheldnum litlum hópi en stórum sundurlausum hópi. Það gildir um flokka, fyrirtæki og íþróttalið.

Nú verður gaman að sjá viðbrögð Guðna – hvað skyldi Davíð Oddsson hafa gert ef svona staða hefði komið upp í hans tíð?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú gengur Guðjón um með mörg sett af glottum á bakinu.Oft hugsað, hvernig geta menn skotið sig í bakið ? Guðjón er búinn að svara því.