mánudagur, 17. desember 2007

Athyglisverð grein ...

... frá Árna Bergmann í miðopnu Morgunblaðsins í dag undir yfirskriftinni "Verðbréfahrun, frelsi og fjölmiðlar". Árni gerir því skóna að hvorki fjölmiðlar né viðmælendur þeirra séu frjálsir vegna hræðslu við þá sterkríku og áhrif þeirra t.d. á atvinnumöguleika fólks í framtíðinni.

Skyldi þetta vera svona?

föstudagur, 14. desember 2007

Þeir síðustu verða fyrstir

Svíar ganga lengra en hin norðurlöndin hvað vinnurétt launþega varðar – þó fróðir menn segji mér að Finnar séu á svipuðum slóðum og þeir.

Til að láta starfsmann fara skilst mér að vinnuveitandi þurfi að sanna á hann brot í starfi – og verði að sýna fram á það. Hann þarf að veita honum áminningu og gefa honum tækifæri til að bæta sig. Teljist það sannað að starfsmaðurinn hafi „brotið af sér“ má segja honum upp – þ.e.a.s. án þess að því fylgi verulegar afleiðingar fyrir vinnuveitandann.


Auðvitað má vinnuveitandi segja starfsmanni upp en sé það ekki á afbrotaforsendum getur hann þurft að borga honum laun í allt að 24 mánuði. Jú, og svo má fyrirtæki auðvitað fækka starfsmönnum, t.d. ef það lendir í rekstrarerfiðleikum, en það þarf að borga þeim margra mánaða laun - og vinnuveitandi ræður ekki hverjir það eru sem fara - þeir sem hafa verið styðst í fyrirtækinu fara fyrstir út, óháð hæfni og frammistöðu.

Um daginn voru einhverjar vangaveltur um að íslenski vinnumarkaðurinn innleiddi eitthvað svipað – guð forði okkur frá því.

Lúðar

Klukkan er orðin rúmlega 10 að kvöldi þegar ég loksins kemst upp á hótel og mér til mikils léttis er eldhúsið opið til 11. Ég panta mér þessa fínu máltíð og er að reyna að lesa Herald Tribune og Financial Times á milli rétta. Ég veit ekki hvað er að gerast – en ég sé ekki vel á blöðin – hugsanlega vegna þreytu, en kannski vegna þess að borðið mitt, þrátt fyrir að vera með gott útsýni við gluggann, lendir á milli ljósa og ég er því að lesa í hálfgerðu myrkri.

Ég geispa ... reyni að bera mig mannalega – en hressist þegar fer að líða á eftirréttinn (ís). Eftir matinn færi ég mig um 10 metra - á barinn – eins og sagt er. Gott að fá sér létta hressingu fyrir svefninn.

Það er ekki mikið af fólki á barnum – enda fimmtudagur – og ég sest við hátt borð (sit eins og á barstól) úti í horni. Búinn að panta mér drykk (gin og tónik). Músíkin er frekar slök, fönkí – en andrúmsloftið rólegt – og DJ‘inn er mjög fönki og skemmtir sér greinilega vel. Dökkhærður, síðhærður, með skegg, sólgleraugu – í þröngum gulum bol þó hann sé ekki alveg skorinn sjálfur – þó ekki feitur – og hann fílar músíkina sína – með sérstaka hreyfingu með hverju lagi ... já, það er eitthvað sjarmerandi við þetta.

Skyndilega stendur maður fyrir framan mig – „can I take picture of you?“ spyr hann og horfir á mig kolsvörtum augum. „Mynd af mér?“ hugsa ég, hvað er að gerast – hann brosir, og segir „I´m making an album“ – og ég segi, „yes of-course“ og horfi íbygginn fram fyrir mig á meðan hann smellir af myndavélasímanum sínum ... eins og ég muni kannski koma í moggann, eða eitthvað.

Ég sé að hann fer á flest borðin og fær að taka myndir – ljúfur, þeldökkur strákur. Hann sest hjá félögum sínum á borði við hliðina á mér – þeir horfa á mig, blikka góðlátlega þennan hrædda Íslending.

Við barinn byrjar par að dilla sér með músíkinni. Hann er stór, stór um sig, dökkhærður með gleraugu – og skegg, frekar lúðalegur. Hún er í mussu, eitt bros og klunnalegir skór. Þetta er ekkert sérstakt hjá þeim – en samt draga þau að sér hógværa athygli flestra – það myndast einhver stemming, allir brosa og eru léttir á brún - hann kann EKKI að dansa – bara engan veginn – en dansar samt vel einhvern veginn, og hún brosir svo ótt og títt með danstöktunum sínum að augljóst er að hún er í alsælu – henni er sama um allt og alla, það er bara svo gaman.

Ég stend mig að því að brosa – er eitthvað til meira ekta en þetta – fólk sem ekki kann að dansa ... en dansar samt vel og af innlifun sem ég efast um að upplifa nokkurn tíma sjálfur

Skyndilega stendur barþjónninn fyrir framan mig og segir „I am taking the last order from the bar, would you like something?“ Ég panta drykk – og þjóninn fer borði til borðs og tekur pantanir. Hann fer á þrjú borð, fjögur, fimm og sex. Svo gengur hann rösklega að barborðinu, slær eitthvað í kassann sinn og stuttu seinna er hann mættur með illberandi bakka af áfengum glösum – henn ber hann samt af fádæma öryggi. Hann gengur rösklega á milli borða, fumlaust með fullkomið tillit til gestanna sem ekki eru alltaf að velta honum fyrir sér

Hann lætur drykkinn minn á borðið mitt, hljóðalaust – en skilur miða eftir til að kvitta – stuttu seinna kemur hann með tómann bakkann og tekur uppákvittaðann miðann frá mér. Fumlaust.

Albúmasmiðurinn kemur allt í einu og býðst til að sýna mér verkið sitt – vandræðalegur tek ég brosandi við myndavélinni hans – um leið rennur myndasýning af stað – og ég festist við skjáinn – fágunin grípur mig strax ... meira að segja myndin af mér er sveipuð dulúðlegum blæ – þetta er þá listamaður eftir allt saman.

Allt í einu gengur barþjónninn framhjá – og að plötusnúðinum – þeir talast við, og svo fer barþjóninn á bak við barborðið og talar við yfirmanninn. Þeir skiptast á orðum – og stuttu seinna hættir músíkin ... og ljósin kveikna. Ég lít yfir salinn og öll glös eru horfin af borðunum, barþjónninn er að þurrka af einu borðanna - og þá eru þau öll orðin hrein.

Allt í einu átta ég mig á því að allir gestirnir eru dökkir – myndasmiðurinn er kolsvartur, barþjónninn líklega frá Puerto Ríko og yfirmaðurinn frá Mexico. Það er langt síðan ég hef upplifað jafn ljúfa stemmningu og jafn mikla fágun og fagmennsku í þjónustu – og stemmning gestanna var innileg, einstök en ekki truflandi fyrir þá sem vildu ró og næði.

Erum við hvíta fólkið hugsanlega lúðar þessa lífs ?

miðvikudagur, 12. desember 2007

Útrás stjórnmálaflokka

Útrás fyrirtækja hefur styrkt fyrirtækin og atvinnulífið í heild, fólkið glímir við nýjar ögranir og þroskamerki viðskiptalífsins vegna þessa eru augljós. Íslenskt viðskiptalíf er nú ekki eins einangrað og var og áhugi erlendra aðila á því – og landinu er meiri.

Er þetta leið sem stjórnmálaflokkar ættu að íhuga – t.d. sem aðdraganda ESB aðilar, fyrir þá sem það vilja? Þeir gætu runnið saman við systurflokk sinn t.d. á norðurlöndunum – og á Íslandi væri deild þess flokks – sem hugsanlega starfaði á öllum norðurlöndunum, evrópu eða einhverju öðru svæði.


Maður sér strax fyrir sér tvo flokka sem eiga sterka leið með erlendum systurflokkum – þ.e. Samfylking og Vinstri Grænir – VG vegna alþjóðlegar umhverfisvakningar og Ísland er klárlega í umræðunni víða um lönd hvað það varðar. VG menn yrðu líklega nokkuð áhrifamiklir í þannig fjöllandaflokki – komandi frá Íslandi. Samfylking er klárlega evrópuflokkur Íslands og virðist líða vel með þá þróun.

Og svo gæti þetta líka verið leið fyrir Framsókn til endurreisnar – Íslenska dreifbýlið er orðið of veikt til að duga sem bakhjarl þeirra – en víða í kringum okkur er blómlegt dreifbýli.

Einhvern veginn sér maður Sjálfstæðisflokkinn ekki fyrir sér í svona þróun – enda hafa þeir verið „kóngurinn“ hér svo lengi – og kannski er bara betra að vera stór í litlu landi en lítill í stóru landi.


Frjálslynda þarf varla að tala um – þeir vilja halda fólki frá landinu – og varla vilja þeir þá fara sjálfir.


En kannski er ekkert vit í þessu, eða kannski er þetta hreinlega ekki hægt – lýðræðisins vegna – eins furðulega og það hljómar.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Evrulán hættuleg

Nú stendur víst til að bjóða okkur Íslendingum íbúðalán á evrópskum kjörum – og margir eru eflaust hrifnir af því.

Flestir íbúðalán-takendur eru fjölskyldur sem flestar eru með lántökunni að ráðast í sínar stærstu fjárfestingar – og oft að spenna bogann um leið. Og íbúðalán eru lán til langs tíma – allt að 40 ára.

Lykilatriðið fyrir það fólk er að geta gengið að kjörunum nokkuð stöðugum. Eitt af grundvallaratriðum þess er að innkoma fólks (tekjur) og útgjöld – m.a. fasteignalánin – sveiflist saman. Gengi gjaldmiðla sveiflast nefnilega – það er pottþétt – spurning er bara hvenær og hversu mikið. Tekjur fólk sveiflast hins vegar ekki eins mikið.


Þann 11. janúar s.l. stóð EVRAN hæst í 94,6 en lægst þann 18. júlí – eða í 82,1. Þetta er 12,6% sveifla.


Það er hins vegar ekkert nýtt að einstaklingar taki erlend lán sem þeir ætla að borga af með íslenskum tekjum. Þegar rekstrarleigumöguleikar á bílum buðust hér fyrst var rekstrarleigan gengistryggð (veit ekki hvort það er eins enn) og margir létu það verða sín fyrstu og einu kynni af erlendri lántöku með íslenskum tekjum. Fæstir reikna nefnilega með neikvæðu sveiflunum – án þeirra er þetta auðvitað frábært.


Sumir segja að þróunin á hlutabréfamarkaðnum beri sömu einkenni og sterk evru-tenging – slæmir eða góðir hlutir annars staðar í heiminum ráða mestu um hvernig gengur hér. Mikil lækkun á erlendum mörkuðum keyra lækkunina hér s.l. fimm mánuði, og við fáum lítið við ráðið. Ég er ekki að segja þetta gegn upptöku evrunnar almennt – en lán fjölskyldna í einum gjaldmiðli og tekjur í öðrum er hættuleg hugsun.

Það er glapræði að ota fólki með evru-glampa í augunum – kannski í bland við vanþekkingu – út í að taka erlend lán þar sem heimili og öryggi fjölskyldu er undir – ekki nema evrulánveitandinn bjóða fjölskyldum gjaldeyrisvarnir, eins og tíðkast við fjármögnun fyrirtækja. En jafnvel með þeim verða fyrirtæki fyrir miklum sveiflum í hagnaði vegna gjaldeyrissveiflna.


Hér þarf fólk að hugsa sig vel um. Gott gengi í dag skiptir engu máli – engu – og gengið mun sveiflast en það gera laun fólks almennt ekki með sama hætti.

Evrulánin eru hins vegar góð – á evrusvæðum – enda er fólk þar með laun í evrum.


Jón Ásgeir á fetinu

Allt góðir hlutir byrja einhvers staðar á einu litlu skrefi. Mikill árangur eða frammúrskarandi einstaklingur sprettur ekki fram fullskapaður án fyrirhafnar. Efi og kunnáttuleysi er óumflýjanlegur fylgifiskur þess og togstreyta er eitthvað sem komast þarf yfir - aftur og aftur. Oftast eru gerð mörg smá og stór mistök – sum sem hægt er að hlæja að seinna meir, önnur sem verða að mikilli lexíu.

Jón Ásgeir er einn af áhrifamestu mönnum smásölugeirans í Bretlandi og hefur verið sá áhrifamesti á Íslandi um árabil. Hann fæddist ekki svona, ekkert frekar en annað árangursríkt fólk.

Hann tók hins vegar eitt skref fyrst. Hvaða skref skyldi það hafa verið? Var það þegar þeir feðgar ákváðu að taka húsnæði í Skútuvoginum á leigu? Eða þegar þeir ákváðu að taka 1 milljón að láni til að geta opnað fyrstu búðina? Hversu óttasleginn skyldi hann hafa verið?

Hvaða ótti eða togstreyta sem fylgdi fyrsta skrefinu sá hann eftir á að allt gekk vel og það var í góðu lagi að láta slag standa – taka áhættu. Kannski gekk ekki allt eins og hann vildi en allt þokaðist í rétta átt.

Svo urðu skrefin stærri og fyrr en varði var hann orðin svo öruggur með sínar ákvarðanir að hann tekur risaskref (í okkar augum). Og stundum höldum við að hann hafi fæðst svona en það „eina“ sem hann gerði var í rauninni að taka litið risaskref þegar aðrir þorðu ekki. Og hann hélt áfram að stíga þessi skref á meðan aðrir gerðu ekkert. Þannig þjálfaði hann áhættusæknina og ákvarðanafærnina - og varð öruggari með skrefin eftir því sem þau stækkuðu.

Þannig “fæddist” einn áhrifamesti smásali á norðurlöndunum og í Bretlandi ... hægt og rólega.

Hvaða framtíðarrisar skyldu vera að stíga sín fyrstu skref í dag?

mánudagur, 10. desember 2007

Ljótir og leiðinlegir

Í helgarblaði sínu fjallar DV um "raunavetur fjárfesta“ með aðstoð „fjármálasérfræðinga“. Vel skiljanlegt umfjöllunarefni eins og málin hafa þróast á markaðnum og margir áhugaverðir vinklar mögulegir í umræðunni, svo sem:

  • Er í lagi að almenningshlutafélög lækki með þessum hætti á markaði og hvað segir það um stjórnendur þeirra?
  • Hvaða leiðir hafa stjórnendur almenningshlutafélaga til að draga úr áhrifum á markaðssveiflum á sig?
  • Hvernig stendur á því að fyrirtæki sem hafa vaxið á markaði um meira en 50% á ári s.l. þrjú ár (2003-5) lenda strax í miklum vanda ef að þrengir? Tengist það síaukinni skuldsetningu samfara auknu markaðsverðmæti – eða tókst þessum fyrirtækjum ekki að hafa „stjórn“ á væntingum fjárfesta eða tiltrú þeirra á félögunum?
  • Hvar brugðust menn, hvaða röngu ákvarðanir voru teknar?
En er þetta umræðan í DV – sem leidd er af tveimur fjármálasérfræðingum – frá Háskóla Íslands? Nei, aldeilis ekki – sérstaklega ekki það sem haft er eftir Vilhjálmi Bjarnasyni, aðjúnkt við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann segir:

„Við skulum tala mannamál. Þá sem tapað hafa gífurlega miklum fjármunum, er óhætt að kalla lúsera. Ég get ekki ímyndað mér að erlendir eða íslenskir fjárfestar leiti að samstarfi við slíka lúsera.“

Jahá! Faglegra verður það nú varla! Og hér er aðjúnktinn að tala um stjórnendur þeirra fyrirtækja sem á undanförnum árum hafa skapað verðmæti sem fyrirtæki um allan heim öfunda þau af. Af hverju sagði hann ekki bara að þeir væru ljótir og leiðinlegir? Það er að minnsta kosti á sama faglega grunninum.


Er þetta leiðin sem Háskóli Íslands ætlar að fara til að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi – eða gleymdist kannski eitt núll í þeirri yfirlýsingu?

Forstjórar almenningshlutafélaga

Allt er tískustraumum háð. Stemmning fólks fyrir stjórnunarstílum er hverful og það sem þykir góður stíll einn daginn þykir það versta hinn daginn.

Þegar markaðurinn er á hraðri uppleið fagna allir ágengum og áhættusæknum stjórnendum og þeir sem hógværari eru líta ekkert alltof vel út – eru oft taldir af gamla skólanum, of hægfara. Svo snýst þetta við þegar markaðurinn dregst saman og áhættusæknir stjórnendur þykja allt að því hættulegir.

Hannes Smárason er t.d. frekar áhættusækinn stjórnandi – setur háleit markmið, er með óbilandi sjálfstraust og fjárfestir í áhætturekstri – jafnvel með lántöku. Í fyrra var þetta gríðarlegur kostur. Nú eru breyttir tímar og nýr forstjóri hefur a.m.k. við fyrstu sín yfirbragð hógværðar og rólyndis – þó enn eigi eftir að sýna sig hve áhættusækinn hann er. Eitt af markmiðum forstjóraskiptanna er án efa einmitt að koma þessari ásýnd áleiðis.

Sumir segja að stjórnendur almenningshlutafélaga eigi að vera helteknir af „worst-case-scenario‘s“ – einmitt svo almennur fjárfestir þurfi ekki að vera það. En það eru það bara ekki allir – eins og dæmin sanna.

Kannski ættu greiningardeildirnar að taka þátt áhættusækninnar meira – eða með augljósari hætti - inn í upplýsingagjöf sína til almennings. Einstaklingar sem kannski eru ekki virkir í fjárfestingum sínum, og leggja verulegan skerf af sinni fjárfestingagetu í eitt félag – eins og oft er - ættu að fá upplýsingar um áhættusækni stjórnandans.

Þannig geta þeir valið tvær leiðir. (1) Að fjárfesta í fyrirtæki með áhættusækinn stjórnanda – sem þeir verða að vakta vel eða (2) fjárfesta í fyrirtæki með hógværan stjórnanda – sem þeir geta treyst betur til lengri tíma.

Almennir fjárfestar hafa nefnilega tvo galla:

  • Þeir fylgjast ekki vel með markaðnum og eru oft seinir að taka ákvarðanir um kaup eða sölu
  • Þeir taka ákvarðanir um kaup eða sölu á tilfinningagrunni - kaupa þegar það er góð stemmning á markaðnum – og oft á háu verði og selja þegar markaðurinn hefur lækkað verulega – oft á töluvert lækkuðu verði
Bestu fjárfestar heims leita alltaf bestu kaupa – og selja á réttum tíma. Sá besti þeirra, Warren Buffet, er 77 ára gamall og hefur eitt fleiri árum í að bíða eftir nógu lágum verðum, en í að fjárfesta. Á tímabili hárra markaða greiðir hann hluthöfum frekar arð en að setja umframfjármagn – eða fjárfestingagetu – í ný fyrirtæki ef þau eru of dýr. Enda er árangurinn ótrúlegur – sá sem fjárfesti 10.000 dollurum í Bershire Hathaway (fjárfestingarfyrirtæki hans) 1977 ætti núna 13.258.000 milljónir dollara. Hvað skyldi þetta vera mikil ávöxtun?

Eigum við Íslendingar svona fjárfesta ?

laugardagur, 8. desember 2007

Alþýðuhetja ársins ?

(teikning : Íslenski fáninn með augum Telmu dóttur minnar þegar hún var átta ára)

Alla daga fjalla fjölmiðlar um fólk sem er þekkt fyrir eitthvað eða hefur atvinnu af því sem fjallað er um – oft fólk sem leggur sig fram um að komast í fjölmiðla. Og reglulega birtast fréttir af ríka fólkinu þegar það gefur samfélaginu, oftast einhverri stofnun þess, eða listamönnum – eins og vinsælt hefur verið um hríð.

Þetta er allt gott og blessað og skiptir auðvitað máli – þó það læðist stundum að manni sá grunur að þessar gjafir tengist oft ímyndarmyndun og að upphæð þeirra sé miðuð við þann skattaafslátt sem fæst í staðinn. En ekki ætla ég að gera lítið úr þessu framlagi – þetta skiptir líka máli og margir sem geta, leggja ekkert af mörkum.

En alþýðuhetja leggur ekki 1-2% af sér til málsstaðar. Alþýðuhetja leggur allt sitt í málstað eða til hjálpar öðrum í erfiðum aðstæðum. Alþýðuhetjan hefur afgerandi áhrif á líf annars fólks, stundum fólks sem hefur engan annan sem talar þeirra röddu eða leggur sig fram fyrir það.

Þetta er venjulegt fólk sem leggur eitthvað óvenjulegt á sig fyrir aðra. Fólk sem hefur það ekki að markmiði að verða frægt, fá viðurkenningu, skapa sér ímynd – eða fá skattaafslátt eða aðra umbun fyrir framlagið.

Stundum flytja fjölmiðlar fréttir af ótrúlegum afrekum venjulegs fólks sem bregðast rétt við tilteknum atburðum – t.d. þegar aðrir lenda í slysi. Þetta fólk leggur allt sitt fram fyrir aðra og hefur afgerandi áhrif á líf þeirra. En svo eru aðrir sem aldrei heyrist af – eða við erum orðin vön að leggi allt sitt af mörkum. Hvaða fólk er þetta á Íslandi? Hverja mynduð þið tilnefna sem alþýðuhetju Íslands 2007?

Ég sit á hótelherbergi í Stokkhólmi – nokkuð sáttur við verkefni dagsins – og horfi á CNN Heroes þar sem CNN er að fjalla um og heiðra ótrúlega fórnfýsi og afrek venjulegs fólks sem oft er að berjast fyrir málum sem við hin horfum á með blinda auganu – berjast með öllu sínu - eða fólk sem leggur líf sitt að veði fyrir aðra við erfiðar aðstæður.

Og allt í einu átta ég mig á því hvað maður hefur lagt lítið af mörkum fyrir aðra.

föstudagur, 7. desember 2007

Sófakynslóðin

Uppgangurinn á Íslandi undanfarin ár hefur varað lengi og í raun hefur heil kynslóð af stjórnendum komið á vinnumarkaðinn sem þekkja ekkert annað en góða tíma. Aðalverkefnin einkennast þá af því að bregðast við mikilli eftirspurn og stækka hraðar en keppinautarnir. Aðgangur að fjármagni er góður og eitt erfiðasta verkefnið er að fá nógu mikið af góðu fólki til að sinna öllum vaxtarverkefnunum.

Sumir kalla þennan hóp sófakynslóðina sem byggist á því mjúka lífi sem það er vant og alið upp í. Hér erum við auðvitað að tala um unga öfluga fólkið sem hefur komið út á markaðinn s.l. 7-8 ár og margt gert góða hluti.

Þó ég vilji ekki meina að kreppa sé í íslensku viðskiptalífi – bara alls ekki – þá eru samt aðrir tímar nú þegar hlutabréfamarkaður hækkar ekkert á milli ára – tímar sem mætti líklega kalla samdrátt, ef ekki meira. Við þessar aðstæður eru aðrar áherslur í stjórnun nauðsynlegar og þar af leiðandi aðrir eiginleikar stjórnenda. Aukið aðhald, sparnaður og jafnvel hagræðing með kostnaðarlækkunum fylgja stundum svona tímabilum.

Þá vaknar sú spurning hvernig sófakynslóðinni muni ganga að bregðast við þessum nýju – áður óþekktu aðstæðum? Kannski fáum við að sjá það – þó við vonum auðvitað ekki.

fimmtudagur, 6. desember 2007

Aldrei rétti tíminn

Fallega fólkið

Líklega eru flestir sammála því að meðal-Íslendingurinn hafi það gott. En ekki er samt gott að vita af tugum þúsunda Íslendinga sem ekki hafa það gott og meðan hinn tuga þúsunda hópurinn er í góðum málum. Það er reyndar sá hópur sem oftast hefur orðið þegar talið berst að stöðu fólksins sem býr hér og sá hópur er oftast á því að þetta sé nú bara allt í lagi - svolítið eins og fallega fólkið, sem er eina fólkið sem segir að það skipti ekki máli að vera fallegt – en það hefur aldrei prófað að vera ljótt.

Samanburður hættulegur

Þetta er líka fólkið sem grípur í samanburð t.d. við önnur lönd til að sýna fram á að þetta sé nú bara þokkalegt hér. Samanburður er hættulegt verkfæri og á aldrei að nota nema til að gæjast á stöðu mála gagnvart öðrum - aldrei til að réttlæta eigin stöðu. Eini samanburðurinn sem á að nota er sá sem sýnir hvernig staða mála er miðað við fyrri stöðu – hvernig ert hún í dag miðað við síðast (betri, verri, eins?).

Ef einblínt er á eigin stöðu og kappkostað við að bæta hana er líklegt að árangur verði mun meiri en hjá þeim sem einblína á samanburð við aðra.

Ýmist of gott eða of slæmt

Upp úr aldamótunum (1999/2000) þurfti sannarlega að kveikja í atvinnulífinu eftir mögur ár – og það var gert með myndarbrag. Umhverfi fyrirtækja hefur tekið verulegum framförum s.l. ár enda eru „fyrirtækin okkar“ að sigra keppinautana út um allan heim.

En nú hlýtur að vera komið að fólkinu. En þá kemur „fallega fólkið“ í hrönnum og segir að þetta sé nú allt í lagi, skattkerfið sé gott og einfalt og með ótrúlegum sannfæringarkrafti talar eins og skattkerfið sé meitlað í stein sem helst megi ekkert höggva í. Meira að segja okkar ágæta Viðskiptablað segir s.l. föstudag að stéttarfélögin „þyrftu að miða aðgerðir sínar við lögin í landinu, í stað þess að lögin í landinu séu látin miðast við aðgerðir þeirra“.

Við eigum sem sagt að þjóna skattkerfinu – en það ekki okkur. Það er slæmt þegar fólk fer að trúa því að kerfi eins og skattkerfið – sem meira að segja er búið til að fólki sem er mistækt eins og við öll – sé komið til að vera, heilagt. Hefði þetta sjónarmið ráðið ríkjum s.l. 10-15 ár er ég hræddur um að umhverfi fyrirtækja hefði tekið litlum breytingum til batnaðar.

Nú tala allir um að ekki sé rétt að lækka skatta, fara þurfi varlega vegna efnahagsástandsins. Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, talar um að kerfið eigi að vera einfalt – sem er ábyggilega rétt þó það geti ekki verið markmið út af fyrir sig – kerfið hlýtur fyrst og fremst að eiga að skila árangri.

Einu sinni hlustaði ég á Pétur Blöndal (fyrir nokkrum árum) flytja erindi um skattamál þar sem ég var að vinna. Hann færði skemmtileg rök fyrir því að það skipti engu hvert ástandið væri – það kæmu alltaf upp raddir, ekki síst meðal stjórnmálamanna og sérfræðinga – um að nú væri ekki rétti tíminn til skattabreytinga eða lækkanna. Ástandið væri annað hvort svo gott að ekki mætti lækka skatta af því það myndi ýta undir frekari þennslu – eða að ástandið væri það slæmt að ekki mætti lækka skatta vegna tekjuöflunar ríkissjóðs. Ég held að þetta sé einmitt málið núna – alvöru skattalækkanir á almenning virðast meðhöndlaðar með þessum rökum.

Stéttarfélögin standa núna frammi fyrir alvöruverkefni og þurfa að hafa sjálfstraust til að finna færar leiðir til að koma málum þeirra sem minnst hafa eitthvað áleiðis. Hefðundnar aðferðir þeirra eru því miður líklegar til að skila hefðbundum árangri – leita þarf í aðrar áttir. Það má ekki gleymast að innbyggð keðjuverkun launasamanburðar innan þeirra eigin kerfa er það sem ýtir alltaf sjálfsögðum launaleiðréttingum þeirra sem skrapa botninn – upp eftir öllum stiganum. Hafa íslensk stéttarfélög það sjálfstraust sem þarf til að klára málið?

Ég er þeirrar skoðunar að ekki þurfi að taka neitt af neinum þó áherslur næstu 5 ára verði á að laga aðstæður þeirra sem mest þurfa á því að halda. Við getum það – þurfum bara að vilja það í raun og veru. Kannski væri best að byrja á að setja ný markmið sem tala til okkar með skýrum hætti – á mannamáli – um hvaða árangri við viljum ná á næstu 5 árum fyrir þann hóp sem þarf mest á lagfæringum að halda. Ef allir verða sammála skýru markmiði sem segir öllum nákvæmlega hvert á að fara – þá næst það mun frekar.

Hvernig væri nú að pólitíkusar að minnsta kosti kíktu upp fyrir box-brúnina - ég tala nú ekki um, stykkju upp úr fjandans boxinu sem margir virðast vera í – og finndu leiðina til að laga nú almennilega óviðunandi aðstæður allt of margra. Hugrekkið til að fara leiðina er auðveldara að finna, ef sannfæringin fyrir leiðinni er algjör.

Það hlýtur að vera leiðinlegt fyrir allt þetta góða fólk í pólitíkinni, að sitja hugsanlega uppi með þá sjálfsmynd að hafa í raun litlu breytt til batnaðar hjá þeim sem helst þurfa á þeim að halda – þó mikið sé á sig lagt við að reyna.

Hannes Smárason er ekki allur

Nokkuð hefur borið á sjálfskipuðum útfararstjórum Hannesar Smárasonar (40 ára) og flestir virðast búnir að afskrifa hann. Samt er ekki nema ár síðan „dómnefnd Markaðarins“ og „vel á annar tugur sérfræðinga í viðskiptalífinu" valdi hann mann ársins í viðskiptalífinu.

Ég þekki manninn ekkert – ekkert frekar en þorri þeirra sem fjalla um hann þessa dagana. Hann hefur einhvern veginn stuðað fjöldann og það virðist vera skotleyfi á hann, enda hefur hann farið hratt yfir og samhliða því - nánast reglulega - staðið í orrahríð ýmissa ásakana - allt frá því að vera sakaður um að fara með almenningshlutafélag sem sitt eigið og yfir í þetta:

Já, hann var eiginlega aldrei alveg samþykktur af fjöldanum – einn af þessum „nýríku sem þykjast mega og geta allt“ segja sumir.

En bakgrunnur Hannesar er eins og best gerist. Hann er með háskólagráður í vélaverkfræði og stjórnun (BS og MBA) frá bestu háskólum í heimi (MIT) og í fjögur ár var hann ráðgjafi hjá virtasta ráðgjafarfyrirtæki heims (McKinsey & Co. í Boston). Það komast engir meðalmenn í gegnum þessa skóla og McKinsey ræður bara til sín besta fólkið – bæði í hugsun og framkvæmd.

Oft fannst mér ég sjá hugmyndafræði McKinsey í aðgerðum Hannesar. Fjárfestingar í fyrirtækjum þar sem hægt var að selja eignir án þess að reksturinn líði fyrir það, þar sem hægt var að brjóta einingar upp, raða þeim öðruvísi saman – kannski kaupa einhverjar minni til að styrkja sumar þeirra - og jafnvel selja aðrar. Og allt með áhersluna á að auka verðmæti hluthafans. Oft gengur mikið á þegar þetta er gert – og blóðið lekur. Þetta virkar miskunnarlaust og þeir sem standa sig „best“ í þessu verða oft dæmdir af almannarómnum sem ósvífnir og samviskulausir eiginhagsmunaseggir.

Stjórnendur – eða bara fólk yfirleitt – sem er líklegt til að láta til sín taka í lífinu og ná árangri einkennist oft af fimm atriðum:

  • Það hefur ástríðu til að ná árangri í því sem það er að gera
  • Það hefur kraft til að láta hlutina gerast – er duglegt
  • Það getur virkjað aðra í kringum sig
  • Það getur tekið erfiðar ákvarðanir – er fljótt að því
  • Og það nær stöðugt árangri
Ég hef aldrei unnið með Hannesi en ég þykist sjá hann í flestum þessum punktum, kannski öllum – nema einum verður maður líklega að segja núna.

Hannes á líka góðan hlut í FL Group (13,7%) og stefnir að því að verða kjölfestan í Geysir Green Energy (23,0%). Fjármálageirinn er kjölfesta hlutabréfamarkaða um allan heim og margir spá orkugeiranum miklum vexti.


Já, við eigum eftir að sjá meira til Hannesar Smárasonar. Síðustu dagar eru honum án efa mikil lexía – en ég yrði ekki hissa þó hann stæði mjög fljótt upp aftur og léti til sín taka í verðmætasköpun í íslensku viðskiptalífi. Og ætli einhverjir muni ekki vilja ferðast með honum þá eins og nú – þó þeir verði kannski nær kantinum, tilbúnir af stökkva af vagninum ef hann lendir í óvæntri ósléttu.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Gunnar Smári, komdu aftur!

Þegar maður skoðar afkomutölur íslenskra fyrirtækja á seinnihluta þessa árs – og hugleiðir þær sem væntanlegar eru í lok ársins – er ekki laust við að manni verði hugsað til þeirrar útreiðar sem Gunnar Smári Egilsson fékk fyrir rúmu ári vegna tapreksturs sem margfalda þarf nokkrum sinnum til að ná t.d. tapi FL Group – og það bara á einum ársfjórðungi.


Auðvitað var margt umdeilanlegt hjá Dagsbrún og gerð voru mistök – og tapið var þó nokkuð, Gunnar Smári hætti í ágúst 2006 og árið var neikvætt um 7 milljarða. En það gera öll fyrirtæki mistök eða taka áhættu sem ekki gengur upp, annars myndu þau ekki lenda í samdrætti eða taprekstri.


Sú orrahríð – sem eftir á að hyggja líkist helst viðskiptalegu einelti – var samt engu lík. Ekkert var nógu gott og öllum áformum var mætt af mikilli neikvæðni sem maður veltir auðvitað fyrir sér hvort hafi kannski haft meira með það að gera hvernig maður Gunnar Smári er – gagnrýninn og óheflaður húmoristi sem alltaf segir það sem honum finnst um allt og alla?


Kannski ætti einhver að kalla hann til aftur, hugmyndafræðinginn og frumkvöðulinn sem skaut Mogganum sjálfum aftur fyrir sig. Það geta ekki margir státað sig af því. Hann myndi að minnsta kosti ekki skera sig úr í íslensku viðskiptaumhverfi dagsins sem einkennist af samdrætti og taprekstri.


Áfram niður .. eða upp ?

Á 14 ára tímabili hlutabréfamarkaðarins hefur einu sinni orðið verulegur samdráttur (2000-1) á honum á ársgrundvelli og á öðrum tíma hægði vel á vextinum (1997-8) en árin 1996 og 1999 var mikill vöxtur, rétt eins og á árunum 2003-5. Hlutabréfamarkaðurinn hefur sem sagt sveiflast frá því hann myndaðist árið 1993.






Á þessu ári hefur markaðurinn lækkað mjög mikið frá miðju ári, en fram að því hafði hann hækkað töluvert.

Árin 2003-5 hækkaði úrvalsvísitalan yfir 50% hvert ár en í fyrra hægði verulega á vextinum og í ár er hann enn minni – enn sem komið er. Þessi mikli vöxtur 2003-5 hefur skapað mörgum fyrirtækjum mikil verðmæti og fjárfestar hafa verið ólmir í að verða virkir á þessum „sexy“ markaði. Við slíkar aðstæður reisir hann sig gjarnan meira en innistæða er fyrir og því er hægari vöxtur í kjölfar svona tímabils kannski ekki óeðlilegur.

Markaðurinn er líka mjög einsleitur, þ.e. hann er mjög háður sveiflum einnar atvinnugreinar. Hér áður fyrr sveiflaðist allt eftir fiskgengdinni en nú er það fjármálageirinn sem hefur áhrifin. Fjármálageirinn hefur staðið sig vel s.l. ár og verðmætaaukningin þar er margföld. En vegna tengslna hans við aðra markaði sem nú fara niður, og sumpart vegna áhættusamra fjárfestinga, þá sígur gengi hans núna – og um leið alls markaðarins. Niðursveiflur á erlendum hlutabréfamörkuðum eru t.d. beintengdari íslenska markaðnum núna en þær voru árin 2000-2001.

En hvað gerist fram til áramóta? Heldur úrvalsvísitalan áfram að lækka, sem gerir hægan vöxt að samdrætti? Eða hækkar hún um einhver prósent og endar kannski á svipuð – hógværum - hækkananótum og 2006?

Svo er spurning hvort markaðurinn hagi sér með svipuðum hætti í byrjun nýs árs og hann hefur gert síðastliðin tvö ár – með snarpri hækkun fram eftir fyrri hluta ársins? Telji einhver það líklegt, er hugsanlegt að sá hinn sami sjái kauptækifæri víða það sem eftir lifir árs.

Þegar þetta er skrifað verður það hins vegar að teljast frekar áhættusöm hugsun, þó sagan bendi til þess að markaðurinn eigi ekki eftir að lækka mikið meira. Árangursríkustu fjárfestar heims (t.d. Warren Buffett) hafa hins vegar sérhæft sig í að kaupa í fyrirtækjum þegar þau eru sem lægst eða verðminnst – og sína oft mikla biðlund við að bíða eftir lægðinni, og hagnast svo vel á uppsveiflunni. Sem alltaf kemur eftir lækkanir sem þessar. Spurningin er bara hvenær?

Want to be a millionaire?

Þessi skemmtilegu ummæli undir nafninu amatör voru gerð við færsluna mína um Landsbankann (eru reyndar færð undir FL umfjöllunina):

"Ætli ástæðan sé ekki bara helst að finna í því að Landsbankinn vann sína heimavinnu betur en hinir eftir árásir erlendra greiningardeilda á vormánuðum 2006 og er nú með miklu traustari fjármögnun en Kaupthing og Glitnir (þ.e. fjármagnar sig meir á innlánum) og því ekki eins næmur gagnvart því vaxtaálagi sem bankarnir þurfa sætta sig við á erlendum fjármagnsmörkuðum þegar endurfjármögnunar er þörf. Óvissan er því minni. Ennfremur má benda á að Glitnir var sennilega töluvert ofmetin áður en lausafjárkrísan skall á þar sem hann var með óréttlætanlega hátt P/B ratio (markaðsvirði/bókfærðu virði) með tilliti til hinna bankanna. Þetta hlutfall er oftast notað til að bera saman fjárfestingarfélög eða banka. Sömu sögu má segja um FL. Á sínum tíma þegar gengi FL Group var 29 kr. á hlut vildu sumir meina að mögulegt væri að "spegla" eignasafn FL og kaupa það á eigin spýtur á jafnvirði gengisins 21.

Ég vil þó taka fram að þetta eru spekúlasjónir sem ég, í anda FL Group, sel ekki dýrari en ég keypti.

Það er hins vegar gaman að rifja upp spakmæli, sem eiga vel við núna, sem milljarðamógullinn, frumkvöðullinn og sprelligosinn Charles Branson lét eitt sinn hafa eftir sér sem hljóðuðu eitthvað á þennan veg:

"Want to be a millionaire? Be a billionaire and buy an airline".

Góðar stundir
Brenndur fjárfestir"

þriðjudagur, 4. desember 2007

FL Group : Styrkleikamerki

Miklar vangaveltur eru um áhrifin af forstjóraskiptum og styrkingu á FL Group með aukinni aðkomu Baugs.

Með réttu eða röngu hefur ásýnd Hannesar hægt og rólega farið að einkennast af mikilli áhættusækni og glamúrlífi. Nýi forstjórinn er – að minnsta kosti við fyrstu sýn – andstæðan við það. Jarðbundinn, yfirvegaður og lítur út fyrir varkárni.

Aukin tengsl við fasteignaarm Baugs mun auka tiltrúna til skemmri og lengri tíma enda fasteignir almennt taldar með því stöðugasta sem hægt er að komast í. Á sama tíma er hlutaféð aukið.

Er FL Group veikara eða sterkara eftir þetta – er þetta upphafið að erfiðri jarðaför félagsins eða endirinn á vantrú markaðarins á framtíðaráform félagsins? Ekki er gott að segja svona í miðjum storminum, en ég hallast að því að á markaðnum verði þetta túlkað sem styrkleikamerki.

Ég er sammála því sem kom fram hjá Óla Birni Kárasyni í Kastljósinu í kvöld. Markaðurinn hefur verið að refsa FL fyrir tapið á 3. ársfjórðungi – og greinilega þvingaða sölu á AMR – undanfarnar vikur. Hugsanlega verða markaðsaðilar fegnir að allri óvissu er eytt og búið er að styrkja félagið með hlutfé auk þess sem fjárfestingaáhættan er minnkuð með fjárfestingum í fasteignafélögum. Og svo er Hannes farinn.

Með góðar undirliggjandi eignir FL (t.d. Glitnir) yrði ég ekki hissa þó fegins andvarp heyrðist einhvers staðar á næstu dögum í kjölfar þessa. Og þá er kannski stutt í að FL Group verði að vænlegu kauptækifæri – en líklega ekki alveg strax.

Landsbankinn sér á parti

Bankarnir og FL Group eru málið á markaðnum í dag.




Landsbankinn er eina þungavigtarfyrirtækið í úrvalsvísitölunni með góðan vöxt á árinu eða yfir 40%. Það er athyglisvert út af fyrir sig og spurning hvers vegna hann nær að stinga sér svona fram úr hinum bönkunum?

FL Group byrjaði árið heldur betur en bankarnir og hafði um miðjan febrúar vaxið um 30% á meðan Landsbankinn hafði vaxið um 18%. Hrakfarir FL eru auðvitað öllum kunnar en athyglisvert er samt að sjá að þrátt fyrir tæplega 19% lækkun á árinu (m.v. 30. nóvember) þá hefur vöxtur í gengi félagsins á s.l. 16 mánuðum verið svipaður og hjá Kaupþingi.


Þróun á gengi FL Group s.l. 16 mánuði er því ekkert verulega frábrugðin öðrum fjármálafyrirtækjum – en gæti þó lækkað ennþá. Það sem hins vegar er frábrugðið er 32 milljarða tap þess á þriðja ársfjórðungi þessa árs og auðvitað sú staðreynd að nú er búið að innleysa stóran hluta þess með sölunni á 8% í AMR – sem sumir segja að hafi ekki verið á besta tíma.

Stóra spurningin er hins vegar – af hverju er Landsbankinn að hækka svona umfram hina bankana?

Greiningardeild utan bankanna

Hlutabréfamarkaður er vettvangur (1) fyrirtækja sem afla þurfa sér fjármagns og (2) fjárfesta sem leita að góðum fjárfestingartækifærum.

Áreiðanleiki og traust á markaðnum skiptir miklu máli og til að stuðla að því hefur m.a. miklu regluverki verið komið upp, sem segir til um hvernig þau fyrirtæki sem skráð eru á markaðnum megi haga sér. Haldið er t.d. utan um innherjalista til að markaðurinn viti ef innherji – eða sá sem er í innsta kjarna fyrirtækisins og veit þá kannski ef eitthvað jákvætt er á döfinni – kaupir í félaginu og á kynningum ársfjórðungsuppgjöra verða forstjórar að gæta þess að segja ekkert sem ekki er búið að tilkynna til markaðarins. Ábúðafullur fulltrúi Kauphallarinnar situr allar kynningarnar og gengur úr skugga um að allt sé samkvæmt bókinni.

Þetta hljómar allt ágætlega og er greinilega gert til að tryggja hag hins almenna hluthafa.

Úrvalsvísitalan, sem samsett er af gengi 13 valinna fyrirtækja, er svo notuð sem vísbending um þróun og ástand markaðarins og hún hefur áhrif á allan markaðinn, bæði önnur félög á aðallista Kauphallarinnar og óskráð félög.

Í ljósi alls þessa er eiginlega dálítið skrítið að helstu ráðgjafar (greinendur) kaupenda og seljenda – og almennings – eru svokallaðar greiningardeildir bankanna. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að stóru bankarnir (Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn) vega langmest í úrvalsvísitölunni eða um 66% og séu fjárfestingarfélög tekin með – sem eru jú í sömu atvinnugreininni – er fjármálageirinn með yfir 90% af úrvalsvísitölunni (sjá mynd).



Þetta þýðir það að breytingar á gengi fjármálafyrirtækja hafa langmest áhrif á úrvalsvísitöluna (OMX). Skoðum þetta aðeins:

  • OMX lækkar um 3,6% ef Kaupþing lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 1,5% ef Landsbankinn lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 0,6% ef FL Group lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 0,1% ef Össur lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 6,6% ef bankarnir þrír lækka um 10%
  • OMX lækkar um 9,1% ef fjármálageirinn lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 0,9% ef öll önnur fyrirtæki en fjármálafyrirtæki lækka um 10%
Af þessu sést að breyting á gengi fjármálafyrirtækja hefur afgerandi áhrif á þróun markaðarins til hækkunar eða lækkunar. Óháð og vönduð greining á fjármálafyrirtækjum – og fjármálageiranum – skiptir fjárfesta því verulega miklu máli, og í rauninni öll fyrirtæki, hvort sem þau eru á markaðnum eða ætla sér þangað í framtíðinni.

Nú er ég alls ekki að væna greiningardeildirnar um óheiðarleika – en er skynsamlegt að öll gagnrýnin, greiningarnar og úttektirnar komi frá þessum sama geira, sem á svona mikið undir þróuninni á hverjum tíma?

Er kannski kominn tími á stofnun greiningardeildar – utan fjármálageirans og án allra hagsmuna við hann eða þróun hlutabréfamarkaðarins yfir höfuð ?

mánudagur, 3. desember 2007

Stefnumótun fjármálaráðherra ?

Í fyrirtækjum er stefnumótun notuð sem aðferð til að keyra fyrirtæki í átt að enn betri árangri á næstu árum. Flest fyrirtæki keyra þetta ferli árlega nú orðið enda hraðinn þannig að það er varla hægt að sjá fyrir ár fram í tímann – hvað þá meira.

Ferlið er jafnan keyrt áfram af forstjóra og þeim framkvæmdastjórum sem bera ábyrgð á þeim þáttum sem skapa félaginu afkomu. Oft eru þessir framkvæmdastjórar ábyrgir fyrir sölu og þjónustu til viðskiptavina. Þegar harðnar í ári (samdráttur), reksturinn versnar og huga þarf að hagræðingu eða kostnaðarlækkunum verður fjármálastjórinn oftast einn af lykilmönnunum í stefnumótuninni og leggur oft línurnar um hver ramminn skuli vera sem aðrir eiga að hugsa og athafna sig innan. Oftast þýðir þetta að annað hvort eigi menn að skera verulega niður eða halda sig sem næst rammanum sem hefur verið. Litlar framfarir rúmast við þessar aðstæður og lagt er upp úr að halda í horfinu.

Getum við heimfært þetta upp á stjórnvöld – ríkisstjórnina ? Þar eru „afkomuráðherrarnir“ nokkrir eða 10 talsins (allir nema fjármálaráðherra) og forsætisráðherra er forstjórinn. Getur verið að aðferðir ríkisstjórnarinnar við stefnumótun séu alltaf miðaðar við samdrátt og kreppu – jafnvel í góðæri ? Leiðir fjármálaráðherra stefnumótun ríkisstjórnarinnar í formi fjárlagagerðar eða ramma sem heldur öllu að mestu í föstum skorðum ? Er það skýringin á því að erfitt er oft að koma augljósum framfaramálum áfram, málum sem oft kalla á breytingar og einhverja tilfærslu fjármuna ?

Auðvitað þarf að halda vel á ríkisfjármálum, og það virðist hafa verið gert - a.m.k. stendur ríkissjóður vel, bæði er reksturinn með afgangi og eignir aukast og skuldir lækka. Einhverjir myndi nú reyndar halda því fram að reksturinn gæti verið betri - og kannski með réttu.

En gæti verið ráð fyrir stjórnvöld að leggja fjárlagaramma fjármálaráðherra til hliðar næst og taka alvöru stefnumótun fyrir stjórnkerfið – án ramma sem lítið sem ekkert má fara út fyrir ? Mætti þannig hugsanlega hraða mörgum nauðsynlegum úrbótum á íslensku velferðarkerfi – og kannski losa fjármuni þaðan sem það er hætt að gera mikið gagn – nema kannski fyrir þá sem með það sýsla og hafa atvinnu af ?

laugardagur, 1. desember 2007

Sál mulningsvélar

Þeir eru undirmannaðir, hæfileikaminni og búa við fjárskort en hafa samt ekki tapað leik í 11 ár! Hvernig er þetta hægt? Það er ekki annað hægt en að taka eftir því þegar einhver snýr lögmálum samkeppninnar við.

Það sem þú þarft að vita um Bob Ladouceur er eftirfarandi. Í desember 1991 tapaði menntaskólaliðið De La Salle Spartans (ameríski fótboltinn) úrslitaleik um North Coast Section championship. Á næsta tímabili hættu þeir að tapa – punktur! Engin töp síðan þá, Ladouceur þjálfari hefur leitt lið sitt til sigurs í 11 samfelld tímabil: 138 sigrar, 0 töp.

Íþróttafrík sjá strax að þetta er ansi sérstakur árangur – mun lengri en þeir 17 leikir sem skapa metið í atvinnumannafótboltanum og lengra en þeir 47 leikir í háskólafótboltanum og meira að segja lengra en 107 samfelldir sigrar hins fræga 400 metra hindrunarhlaupara, Edwin Moses. Líklega er þetta jafnvel lengsta sigurganga hvers sem er, í hvaða íþrótt sem er.


Það er alveg ljóst að það þarf sérstaka leiðtogahæfileika til að þetta takist og því er eðlilegt að spyrja hvernig Ladouceur fer að þessu?


En skoðum fyrst aðstæðurnar. De La Salle skólinn er lítill (1.000 nemendur) og með næstum því 100% „starfsmanna“ (lesist nemendur) veltu á fjögurra ára fresti. Skólinn er í Concord í Kaliforníu, eins konar svefnbæ rétt við San Fransisco, og íbúar Concord flykkjast ekki á leiki liðsins auk þess sem þetta svæði telst ekki vera mikið íþróttasvæði.


Þrátt fyrir þetta halda Spartans áfram að vinna ár eftir ár, á sama tíma og þeir mæta sífellt harðari samkeppni frá öðrum liðum og missa stöðugt leikmenn sem önnur lið gera gjarnan lítið úr og kalla meðalspilara og hæfileikalitla.


Með öðrum orðum má segja að hér sé módel fyrir þá sem eru undirmannaðir, búa við fjárskort og hafa ekki á sínum snærum bestu spilarana – aðstæður sem mörg fyrirtæki búa við í dag. Setjist því niður og lesið með athygli hvernig Ladouceur spilar úr því sem hann hefur.


Byrjar með ferli: Á árinu 1979 þurfti Ladouceur að stappa stálinu í sína fáu kjarklitlu leikmenn sem höfðu ekki lifað vinningstímabil í sögu skólans. „Mín nálgun snerist öll um ferli,“ segir hann. „Ég hafði engin langtímamarkmið, ég sagði bara við sjálfan mig, kennum þessum strákum hvernig á að sigra og hvað þarf að koma til og gerum það síðan að daglegu ferli.“


Skapa smásigra: Ladouceur horfði í augu leikmanna sinna og sagði: „Allt sem ég bið um er þetta: í lok hverrar æfingar vil ég að þið verðið betri en þið voruð tveimur til þremur tímum fyrr.“ Hvort sem það var í lyftingarsalnum eða úti á velli bað hann strákana að koma af æfingu sem aðeins betri sóknarmenn en þeir voru, með örlítið meiri skilning á leiknum eða með betra þol.

Deilum erfiðinu (og ávinningum): Ladouceur þjálfari setur lið sitt á strangt styrkingar- og þjálfunarprógramm allt árið. Það var leið til að breyta kúltúrnum, til að hrekja þá strax burtu sem voru líklegir til að hætta og til að skapa sterka liðsheild. Hann varð goðsögn í skólanum fyrir að hafa svitnað og æft á fullu með liðum sínum á fyrri árum hans sem þjálfari en hann var aðeins 25 ára þegar hann tók við þjálfuninni. Eftir 25 ár lyftir Ladouceur hvorki né hleypur með strákunum en hann sýnir samt ákafa og stöðugan áhuga á að gera hlutina rétt og ekki bara tæknilega eða íþróttalega heldur líka andlega.


Notaðu það sem þú hefur: Í viðskiptum, eins og í fótbolta, skiptir stærðin máli og hæfileikar gera gæfumuninn. En í hópíþrótt eins og fótbolta (líkt og í viðskiptum) má brúa stærðar- og hæfileikabilið með klókindum og hraða. Það eru mistök að reyna að mæta styrk keppinautarins þar sem þú ert veikur fyrir eða hann er sterkur.
Hæfileikaauðlind Spartans fótboltaliðsins var heldur þunn svo Ladouceur innleiddi tvenns konar sóknarleik sem gerir hvorki kröfu um toppvarnarleik, stóran línumann eða stóran og hraðan bakvörð, eitthvað sem Ladouceur hafði ekki í sínu liði.

Treystu liðinu þínu en hjálpaðu þeim að verða traustsins verðir: Sóknarleikurinn krefst þess að bakverðirnir taki ákvörðun um að hlaupa eða senda boltann fljótar. Á viðskiptamáli heitir þetta að dreifa ábyrgð og verkefnum til samstarfsmanna. Þetta kallar á traust til leikmanna til að gera það sem gera þarf.


En traust kemur ekki af sjálfu sér. Ladouceur þjálfari hendir leikmönnum ekki inn í erfiðar aðstæður og ætlast til að þeir haldi velli. „Ég reyni að vera skynsamur í þessum efnum,“ segir hann, „ef einhver hefur ekki nægan hraða eða hæfileika hugsa ég alltaf að þeir geti bætt fyrir það með því að vera klókir, með því að vera slóttugir og með því að nota almenna skynsemi.“


En hann vinnur ekki bara í blindri trú á þetta en hann ætlast til þess að þessir eiginleikar sjáist á æfingum. Bakvörður verður t.d. að æfa hlaup aftur og aftur þar til að hann þekkir valkosti sína algjörlega. „Strákunum finnst erfitt að gera mig ánægðan,“ viðurkennir hann, „en á móti kemur að þeir telja að ég trúi á þá og það geri ég.“

Vertu þú sjálfur: Ladouceur sá frá upphafi um að skapa sér trúverðugleika og viðhalda honum. „Ég reyndi aldrei að líkja eftir öðrum þjálfara eða neinni annarri persónu,“ segir hann, „þú verður að vera þú sjálfur. Ef þú ert ekki sá sem þú segist vera mun fólkið sem þú umgengst, í þessu tilfelli strákarnir, sjá fljótt í gegnum það.“ Þegar kemur að því að taka ákvarðanir er vald hans byggt á trúverðleika, ekki á mælskulist, ógnunum eða persónutöfrum.


Vertu kennari sem skapar kennara: Á æfingum kennir Ladouceur tæknina með því að fara í stellingarnar sjálfur og tala um fyrstu skrefin. Eftir nokkrar endurtekningar stígur hann til baka. „Ég ætlast til þess að strákarnir leiði sig sjálfir.“ Í lyftingasalnum leiðbeina leikmenn hver öðrum og þeim þykir ekki tiltökumál að stoppa æfingu félaga síns ef hún er röng. „Þeir eru því sjálfstillanlegir,“ segir hann.


Elskaðu mistök þeirra: Æfingar Spartans-liðsins eru nákvæmar en frjálslegar með mikið af hlátri, hléum og mistökum. Ladouceur elskar mistökin sem leikmenn hans gera, þau gefa honum tækifæri til að gera það sem hann gerir best þ.e. að nýta mistökin til að læra af þeim. „Þetta snýst allt um lærdómsstundir,“ segir hann, „og að verða var við þær þegar þær birtast.“ Hann skortir ekki efniviðinn í það. „Kosturinn við að hafa 50 stráka er að lærdómsstundir koma á hverjum degi.“

Um eitthvað meira en vinnu: Þessar lærdómsstundir henta ekki bara í fótbolta, langt því frá. „Strákarnir verða að skynja að þetta snýst um meira en bara fótbolta,“ segir hann, „ég held þú fáir ekki þeirra virðingu öðruvísi.“ Þetta er það sem hefur lærdómsstundirnar yfir hversdagsleikann. „Þetta er ekki bara um að verða betri líkamlega heldur um það hvernig við erum að verða betri sem manneskjur: með tilliti til kurteisi, virðingu, hvernig þeir fara með sjálfan sig, hvernig þeir umgangast félaga sína og hvernig þeir virða sjálfan sig.”


Byggðu upp lið með sál: Þetta hefur ekki hljómað eins og hefðbundin fótboltaþjálfun til þessa, er það? En nú fer að koma að kjarna málsins. Liðskúltúr Spartans snýst um tryggð og ábyrgð. Í gegnum árin hefur Ladouceur inngreipt sterka tengslamyndun og náin samskipti meðal leikmanna. Það er X-þátturinn sem gerir lið hvers árs að verðugum arftaka fyrri ósigraðra liða.


„Ef lið hefur enga sál ertu bara að eyða tíma þínum,“ segir hann. Þegar Spartans birtist í lyftingasalnum í janúar eftir aðeins fjögurra vikna frí frá fyrra tímabili snýst þetta ekki bara um að komast í gott líkamlegt form heldur um að styrkja tengslin innan liðsins. Á milli tímabila fara leikmenn í útilegur, sigla saman niður ár eða vinna einhver verkefni fyrir samfélagið. Á keppnistímabilinu fer liðið reglulega í kirkju þar sem hver leikmaður fyllir út skuldbindingarkort þar sem væntingar þeirra til næsta leiks eru listaðar.

Eftir hverja æfingu er kvöldverður heima hjá einhverjum leikmanni sem endar í kirkjuferð. Með vaxandi spennu tala leikmenn frá hjartanu, játa veikleika sína og gefa loforð sín á skuldbindingarkortunum. Þröskuldurinn er alltaf sá sami í hverri viku: að lýsa yfir tryggð í garð hinna leikmannanna. Eftir að Ladouceur hefur hafið umræðuna bíður hann og hlustar. Hann bíður eins lengi þarf og í hverri viku yfirstíga nógu margir leikmenn vandræðaganginn og tjá sig. Og þá, í hverri viku, eins og þeir hafa gert á hverju tímabili sl. 11 ár, koma Spartans heim sem sigurvegarar.


Sagan er úr októberhefti Fast Company 2003 og var endursögð af mér í tímariti KPMG árið 2004. Skömmu eftir að ég vann þessa grein setti ég mig í samband við Bob Ladouceur í þeim tilgangi að fá hann hingað heim til að segja sögu sína. Því miður varð aldrei af því, hann hafði þá nýverið fengið hjartaáfall og var að jafna sig af því.


Samkvæmt því sem eiginkona hans sagði þá gekk það vel – og hún átti von á að hann gæti fljótlega byrjað að sinna fjölmörgum beiðnum um að kynna þessa sögu sína. Ég var bara einn af mörgum áhugasömum – enda maðurinn og árangur hans einstakur.