þriðjudagur, 4. desember 2007

Greiningardeild utan bankanna

Hlutabréfamarkaður er vettvangur (1) fyrirtækja sem afla þurfa sér fjármagns og (2) fjárfesta sem leita að góðum fjárfestingartækifærum.

Áreiðanleiki og traust á markaðnum skiptir miklu máli og til að stuðla að því hefur m.a. miklu regluverki verið komið upp, sem segir til um hvernig þau fyrirtæki sem skráð eru á markaðnum megi haga sér. Haldið er t.d. utan um innherjalista til að markaðurinn viti ef innherji – eða sá sem er í innsta kjarna fyrirtækisins og veit þá kannski ef eitthvað jákvætt er á döfinni – kaupir í félaginu og á kynningum ársfjórðungsuppgjöra verða forstjórar að gæta þess að segja ekkert sem ekki er búið að tilkynna til markaðarins. Ábúðafullur fulltrúi Kauphallarinnar situr allar kynningarnar og gengur úr skugga um að allt sé samkvæmt bókinni.

Þetta hljómar allt ágætlega og er greinilega gert til að tryggja hag hins almenna hluthafa.

Úrvalsvísitalan, sem samsett er af gengi 13 valinna fyrirtækja, er svo notuð sem vísbending um þróun og ástand markaðarins og hún hefur áhrif á allan markaðinn, bæði önnur félög á aðallista Kauphallarinnar og óskráð félög.

Í ljósi alls þessa er eiginlega dálítið skrítið að helstu ráðgjafar (greinendur) kaupenda og seljenda – og almennings – eru svokallaðar greiningardeildir bankanna. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að stóru bankarnir (Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn) vega langmest í úrvalsvísitölunni eða um 66% og séu fjárfestingarfélög tekin með – sem eru jú í sömu atvinnugreininni – er fjármálageirinn með yfir 90% af úrvalsvísitölunni (sjá mynd).Þetta þýðir það að breytingar á gengi fjármálafyrirtækja hafa langmest áhrif á úrvalsvísitöluna (OMX). Skoðum þetta aðeins:

  • OMX lækkar um 3,6% ef Kaupþing lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 1,5% ef Landsbankinn lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 0,6% ef FL Group lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 0,1% ef Össur lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 6,6% ef bankarnir þrír lækka um 10%
  • OMX lækkar um 9,1% ef fjármálageirinn lækkar um 10%
  • OMX lækkar um 0,9% ef öll önnur fyrirtæki en fjármálafyrirtæki lækka um 10%
Af þessu sést að breyting á gengi fjármálafyrirtækja hefur afgerandi áhrif á þróun markaðarins til hækkunar eða lækkunar. Óháð og vönduð greining á fjármálafyrirtækjum – og fjármálageiranum – skiptir fjárfesta því verulega miklu máli, og í rauninni öll fyrirtæki, hvort sem þau eru á markaðnum eða ætla sér þangað í framtíðinni.

Nú er ég alls ekki að væna greiningardeildirnar um óheiðarleika – en er skynsamlegt að öll gagnrýnin, greiningarnar og úttektirnar komi frá þessum sama geira, sem á svona mikið undir þróuninni á hverjum tíma?

Er kannski kominn tími á stofnun greiningardeildar – utan fjármálageirans og án allra hagsmuna við hann eða þróun hlutabréfamarkaðarins yfir höfuð ?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það starfa reyndar tvær slíkar, en eru reyndar trúlega enn háðari aðstæðum. Annars vegar í seðlabankanum, þar sem greiningar virðast eingöngu vera settar fram til að styðja stefnu bankans. Hins vegar í fjármálaráðuneytinu, þar sem staðan er svipuð.

Hvar er þjóðhagsstofnun nú?

Jón Garðar sagði...

Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið fjalla almennt um markaðinn en einstaka markaðsaðila, og auðvitað eru t.d. verðbréfafyrirtæki að stúdera markaðsaðila og veita ráðgjöf - en bankarnir eru samt í algjöru lykilhlutverki - og á bullandi kafi í áhættufjárfestingum á markaðnum sem þeir svo greina.

Ekki myndum við vilja að fyrirtæki væru með endurskoðendur í föstu starfi við að endurskoða félagið - undir stjórn forstjóra þess ?

Jón Garðar sagði...

Ætlaði að segja "ekki einstaka markaðsaðila".