mánudagur, 3. desember 2007

Stefnumótun fjármálaráðherra ?

Í fyrirtækjum er stefnumótun notuð sem aðferð til að keyra fyrirtæki í átt að enn betri árangri á næstu árum. Flest fyrirtæki keyra þetta ferli árlega nú orðið enda hraðinn þannig að það er varla hægt að sjá fyrir ár fram í tímann – hvað þá meira.

Ferlið er jafnan keyrt áfram af forstjóra og þeim framkvæmdastjórum sem bera ábyrgð á þeim þáttum sem skapa félaginu afkomu. Oft eru þessir framkvæmdastjórar ábyrgir fyrir sölu og þjónustu til viðskiptavina. Þegar harðnar í ári (samdráttur), reksturinn versnar og huga þarf að hagræðingu eða kostnaðarlækkunum verður fjármálastjórinn oftast einn af lykilmönnunum í stefnumótuninni og leggur oft línurnar um hver ramminn skuli vera sem aðrir eiga að hugsa og athafna sig innan. Oftast þýðir þetta að annað hvort eigi menn að skera verulega niður eða halda sig sem næst rammanum sem hefur verið. Litlar framfarir rúmast við þessar aðstæður og lagt er upp úr að halda í horfinu.

Getum við heimfært þetta upp á stjórnvöld – ríkisstjórnina ? Þar eru „afkomuráðherrarnir“ nokkrir eða 10 talsins (allir nema fjármálaráðherra) og forsætisráðherra er forstjórinn. Getur verið að aðferðir ríkisstjórnarinnar við stefnumótun séu alltaf miðaðar við samdrátt og kreppu – jafnvel í góðæri ? Leiðir fjármálaráðherra stefnumótun ríkisstjórnarinnar í formi fjárlagagerðar eða ramma sem heldur öllu að mestu í föstum skorðum ? Er það skýringin á því að erfitt er oft að koma augljósum framfaramálum áfram, málum sem oft kalla á breytingar og einhverja tilfærslu fjármuna ?

Auðvitað þarf að halda vel á ríkisfjármálum, og það virðist hafa verið gert - a.m.k. stendur ríkissjóður vel, bæði er reksturinn með afgangi og eignir aukast og skuldir lækka. Einhverjir myndi nú reyndar halda því fram að reksturinn gæti verið betri - og kannski með réttu.

En gæti verið ráð fyrir stjórnvöld að leggja fjárlagaramma fjármálaráðherra til hliðar næst og taka alvöru stefnumótun fyrir stjórnkerfið – án ramma sem lítið sem ekkert má fara út fyrir ? Mætti þannig hugsanlega hraða mörgum nauðsynlegum úrbótum á íslensku velferðarkerfi – og kannski losa fjármuni þaðan sem það er hætt að gera mikið gagn – nema kannski fyrir þá sem með það sýsla og hafa atvinnu af ?

Engin ummæli: