laugardagur, 1. desember 2007

Sál mulningsvélar

Þeir eru undirmannaðir, hæfileikaminni og búa við fjárskort en hafa samt ekki tapað leik í 11 ár! Hvernig er þetta hægt? Það er ekki annað hægt en að taka eftir því þegar einhver snýr lögmálum samkeppninnar við.

Það sem þú þarft að vita um Bob Ladouceur er eftirfarandi. Í desember 1991 tapaði menntaskólaliðið De La Salle Spartans (ameríski fótboltinn) úrslitaleik um North Coast Section championship. Á næsta tímabili hættu þeir að tapa – punktur! Engin töp síðan þá, Ladouceur þjálfari hefur leitt lið sitt til sigurs í 11 samfelld tímabil: 138 sigrar, 0 töp.

Íþróttafrík sjá strax að þetta er ansi sérstakur árangur – mun lengri en þeir 17 leikir sem skapa metið í atvinnumannafótboltanum og lengra en þeir 47 leikir í háskólafótboltanum og meira að segja lengra en 107 samfelldir sigrar hins fræga 400 metra hindrunarhlaupara, Edwin Moses. Líklega er þetta jafnvel lengsta sigurganga hvers sem er, í hvaða íþrótt sem er.


Það er alveg ljóst að það þarf sérstaka leiðtogahæfileika til að þetta takist og því er eðlilegt að spyrja hvernig Ladouceur fer að þessu?


En skoðum fyrst aðstæðurnar. De La Salle skólinn er lítill (1.000 nemendur) og með næstum því 100% „starfsmanna“ (lesist nemendur) veltu á fjögurra ára fresti. Skólinn er í Concord í Kaliforníu, eins konar svefnbæ rétt við San Fransisco, og íbúar Concord flykkjast ekki á leiki liðsins auk þess sem þetta svæði telst ekki vera mikið íþróttasvæði.


Þrátt fyrir þetta halda Spartans áfram að vinna ár eftir ár, á sama tíma og þeir mæta sífellt harðari samkeppni frá öðrum liðum og missa stöðugt leikmenn sem önnur lið gera gjarnan lítið úr og kalla meðalspilara og hæfileikalitla.


Með öðrum orðum má segja að hér sé módel fyrir þá sem eru undirmannaðir, búa við fjárskort og hafa ekki á sínum snærum bestu spilarana – aðstæður sem mörg fyrirtæki búa við í dag. Setjist því niður og lesið með athygli hvernig Ladouceur spilar úr því sem hann hefur.


Byrjar með ferli: Á árinu 1979 þurfti Ladouceur að stappa stálinu í sína fáu kjarklitlu leikmenn sem höfðu ekki lifað vinningstímabil í sögu skólans. „Mín nálgun snerist öll um ferli,“ segir hann. „Ég hafði engin langtímamarkmið, ég sagði bara við sjálfan mig, kennum þessum strákum hvernig á að sigra og hvað þarf að koma til og gerum það síðan að daglegu ferli.“


Skapa smásigra: Ladouceur horfði í augu leikmanna sinna og sagði: „Allt sem ég bið um er þetta: í lok hverrar æfingar vil ég að þið verðið betri en þið voruð tveimur til þremur tímum fyrr.“ Hvort sem það var í lyftingarsalnum eða úti á velli bað hann strákana að koma af æfingu sem aðeins betri sóknarmenn en þeir voru, með örlítið meiri skilning á leiknum eða með betra þol.

Deilum erfiðinu (og ávinningum): Ladouceur þjálfari setur lið sitt á strangt styrkingar- og þjálfunarprógramm allt árið. Það var leið til að breyta kúltúrnum, til að hrekja þá strax burtu sem voru líklegir til að hætta og til að skapa sterka liðsheild. Hann varð goðsögn í skólanum fyrir að hafa svitnað og æft á fullu með liðum sínum á fyrri árum hans sem þjálfari en hann var aðeins 25 ára þegar hann tók við þjálfuninni. Eftir 25 ár lyftir Ladouceur hvorki né hleypur með strákunum en hann sýnir samt ákafa og stöðugan áhuga á að gera hlutina rétt og ekki bara tæknilega eða íþróttalega heldur líka andlega.


Notaðu það sem þú hefur: Í viðskiptum, eins og í fótbolta, skiptir stærðin máli og hæfileikar gera gæfumuninn. En í hópíþrótt eins og fótbolta (líkt og í viðskiptum) má brúa stærðar- og hæfileikabilið með klókindum og hraða. Það eru mistök að reyna að mæta styrk keppinautarins þar sem þú ert veikur fyrir eða hann er sterkur.
Hæfileikaauðlind Spartans fótboltaliðsins var heldur þunn svo Ladouceur innleiddi tvenns konar sóknarleik sem gerir hvorki kröfu um toppvarnarleik, stóran línumann eða stóran og hraðan bakvörð, eitthvað sem Ladouceur hafði ekki í sínu liði.

Treystu liðinu þínu en hjálpaðu þeim að verða traustsins verðir: Sóknarleikurinn krefst þess að bakverðirnir taki ákvörðun um að hlaupa eða senda boltann fljótar. Á viðskiptamáli heitir þetta að dreifa ábyrgð og verkefnum til samstarfsmanna. Þetta kallar á traust til leikmanna til að gera það sem gera þarf.


En traust kemur ekki af sjálfu sér. Ladouceur þjálfari hendir leikmönnum ekki inn í erfiðar aðstæður og ætlast til að þeir haldi velli. „Ég reyni að vera skynsamur í þessum efnum,“ segir hann, „ef einhver hefur ekki nægan hraða eða hæfileika hugsa ég alltaf að þeir geti bætt fyrir það með því að vera klókir, með því að vera slóttugir og með því að nota almenna skynsemi.“


En hann vinnur ekki bara í blindri trú á þetta en hann ætlast til þess að þessir eiginleikar sjáist á æfingum. Bakvörður verður t.d. að æfa hlaup aftur og aftur þar til að hann þekkir valkosti sína algjörlega. „Strákunum finnst erfitt að gera mig ánægðan,“ viðurkennir hann, „en á móti kemur að þeir telja að ég trúi á þá og það geri ég.“

Vertu þú sjálfur: Ladouceur sá frá upphafi um að skapa sér trúverðugleika og viðhalda honum. „Ég reyndi aldrei að líkja eftir öðrum þjálfara eða neinni annarri persónu,“ segir hann, „þú verður að vera þú sjálfur. Ef þú ert ekki sá sem þú segist vera mun fólkið sem þú umgengst, í þessu tilfelli strákarnir, sjá fljótt í gegnum það.“ Þegar kemur að því að taka ákvarðanir er vald hans byggt á trúverðleika, ekki á mælskulist, ógnunum eða persónutöfrum.


Vertu kennari sem skapar kennara: Á æfingum kennir Ladouceur tæknina með því að fara í stellingarnar sjálfur og tala um fyrstu skrefin. Eftir nokkrar endurtekningar stígur hann til baka. „Ég ætlast til þess að strákarnir leiði sig sjálfir.“ Í lyftingasalnum leiðbeina leikmenn hver öðrum og þeim þykir ekki tiltökumál að stoppa æfingu félaga síns ef hún er röng. „Þeir eru því sjálfstillanlegir,“ segir hann.


Elskaðu mistök þeirra: Æfingar Spartans-liðsins eru nákvæmar en frjálslegar með mikið af hlátri, hléum og mistökum. Ladouceur elskar mistökin sem leikmenn hans gera, þau gefa honum tækifæri til að gera það sem hann gerir best þ.e. að nýta mistökin til að læra af þeim. „Þetta snýst allt um lærdómsstundir,“ segir hann, „og að verða var við þær þegar þær birtast.“ Hann skortir ekki efniviðinn í það. „Kosturinn við að hafa 50 stráka er að lærdómsstundir koma á hverjum degi.“

Um eitthvað meira en vinnu: Þessar lærdómsstundir henta ekki bara í fótbolta, langt því frá. „Strákarnir verða að skynja að þetta snýst um meira en bara fótbolta,“ segir hann, „ég held þú fáir ekki þeirra virðingu öðruvísi.“ Þetta er það sem hefur lærdómsstundirnar yfir hversdagsleikann. „Þetta er ekki bara um að verða betri líkamlega heldur um það hvernig við erum að verða betri sem manneskjur: með tilliti til kurteisi, virðingu, hvernig þeir fara með sjálfan sig, hvernig þeir umgangast félaga sína og hvernig þeir virða sjálfan sig.”


Byggðu upp lið með sál: Þetta hefur ekki hljómað eins og hefðbundin fótboltaþjálfun til þessa, er það? En nú fer að koma að kjarna málsins. Liðskúltúr Spartans snýst um tryggð og ábyrgð. Í gegnum árin hefur Ladouceur inngreipt sterka tengslamyndun og náin samskipti meðal leikmanna. Það er X-þátturinn sem gerir lið hvers árs að verðugum arftaka fyrri ósigraðra liða.


„Ef lið hefur enga sál ertu bara að eyða tíma þínum,“ segir hann. Þegar Spartans birtist í lyftingasalnum í janúar eftir aðeins fjögurra vikna frí frá fyrra tímabili snýst þetta ekki bara um að komast í gott líkamlegt form heldur um að styrkja tengslin innan liðsins. Á milli tímabila fara leikmenn í útilegur, sigla saman niður ár eða vinna einhver verkefni fyrir samfélagið. Á keppnistímabilinu fer liðið reglulega í kirkju þar sem hver leikmaður fyllir út skuldbindingarkort þar sem væntingar þeirra til næsta leiks eru listaðar.

Eftir hverja æfingu er kvöldverður heima hjá einhverjum leikmanni sem endar í kirkjuferð. Með vaxandi spennu tala leikmenn frá hjartanu, játa veikleika sína og gefa loforð sín á skuldbindingarkortunum. Þröskuldurinn er alltaf sá sami í hverri viku: að lýsa yfir tryggð í garð hinna leikmannanna. Eftir að Ladouceur hefur hafið umræðuna bíður hann og hlustar. Hann bíður eins lengi þarf og í hverri viku yfirstíga nógu margir leikmenn vandræðaganginn og tjá sig. Og þá, í hverri viku, eins og þeir hafa gert á hverju tímabili sl. 11 ár, koma Spartans heim sem sigurvegarar.


Sagan er úr októberhefti Fast Company 2003 og var endursögð af mér í tímariti KPMG árið 2004. Skömmu eftir að ég vann þessa grein setti ég mig í samband við Bob Ladouceur í þeim tilgangi að fá hann hingað heim til að segja sögu sína. Því miður varð aldrei af því, hann hafði þá nýverið fengið hjartaáfall og var að jafna sig af því.


Samkvæmt því sem eiginkona hans sagði þá gekk það vel – og hún átti von á að hann gæti fljótlega byrjað að sinna fjölmörgum beiðnum um að kynna þessa sögu sína. Ég var bara einn af mörgum áhugasömum – enda maðurinn og árangur hans einstakur.

Engin ummæli: