föstudagur, 30. nóvember 2007

Lögmálin beygð

Mér skilst að árlegur innflutningur til landsins nemi sem svarar um 20 feta gámi á hvern Íslending. Hér hefur ríkt eftirspurnarástand á flestum mörkuðum um árabil, sem mörg fyrirtæki ráða illa við. Vörur eru rifnar út um leið og þær koma og oft seljast vörur upp.

Kannski er það ástæðan fyrir því að þjónusta margra fyrirtækja er léleg og fer versnandi. Í svona mikilli umfram eftirspurn minnkar nefnilega oft samkeppnin í raun og hvert og eitt okkar verður óþarfara - enda er alltaf nóg af öðrum kaupendum.


Lögmál framboðs og eftirspurnar virðist ekki virka hér, kannski svolítið eins og með stýrivexti Seðlabankans. Ef vextir hækka á sparnaður að aukast og ef verð vara hækka (eins og verið hefur) á eftirspurn að minnka. Það gerist hins vegar ekki hér – neyslan hefur völdin.


Ennþá að minnsta kosti - sumir segja að þetta sé að breytast.


fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Hálf-fimm fréttir kirkjunnar

Ef peningar eru annars vegar stendur ekki á greiningartólum og vísitölum sem nokkrar greiningardeildir fylgjast með og fjalla um daglega. Hálf-fimm fréttir bankanna eru svo sendar þeim sem vilja á tölvupósti – og allir vita hvað er að gerast og geta andað rólega.

En hvað er til staðar þegar kemur að samfélaginu, stöðu þess og þróun? Svarið við því er einfalt - lítið sem ekkert. Jú, stundum koma fram einstaka úttektir á afmörkuðum þáttum samfélagsins – en ekkert heilsteypt. Og svo rífast allir um hvort allt sé gott eða slæmt hér.

Er forgangsröðunin virkilega svona hjá okkur? Peningum þarf að fylgjast með daglega, og jafnvel oft á dag – en gæði samfélagsins skipta ekki máli?

Af hverju búum við ekki til samfélagsvísitölu sem t.d. innheldur fjölda glæpa, upphæðir sem gefnar eru til góðgerðarmála, atvinnuleysi, fjölda fólks undir ákveðnum tekjumörkum, fjölda fólks yfir ákveðnum tekjumörkum, sjálfsmorð, magn þunglyndislyfja ... og bara Guð má vita hvað?

Væri þetta ekki kjörið verkefni fyrir Kirkjuna? Hún gæti sett hluta af sínum krafti í að starfrækja greiningardeild sem tæki saman upplýsingar – sem virðist alveg nóg af – og birti, jafnvel daglega, samfélagsvísitöluna – og gæti svo verið með umfjöllun um þróun hennar og einstaka þætti hennar í Hálf-fimm fréttum Kirkjunnar.


Ég myndi lesa þær fréttir.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Eigin ábyrgð kvenna

Ég hef aldrei verið í hópi þeirra sem gera kröfur til annarra í þeim tilgangi að bæta eigin stöðu. Ég tek það fram að ég er ekki að tala um fólk sem býr við erfiðar aðstæður eða óréttlæti sem ógnar lífi þeirra, öryggi og frelsi. Ég er að tala um hinn hefðbundna Íslending.

Í starfi mínu sem ráðgjafi hitti ég tvenns konar fólk. Annars vegar fólk sem stöðugt ætlast til þess að aðrir geri eitthvað til að bæta stöðu þess eða árangur og hins vegar fólk sem tekur stjórn á eigin árangri, sýnir frumkvæði og tekur þannig ábyrgð á eigin stöðu.

Við eigum heilar stéttir eða hópa fólks sem stöðugt ætlast til þess að aðrir geri eitthvað til að bæta þeirra stöðu. Innan þeirra eru reyndar til einstaklingar sem taka ábyrgð á eigin árangri og ná langt. Yfirleitt skilur á milli þeirra og hópsins sem þeir „eiga“ að tilheyra. Og þetta eru bæði konur og karlar.

Þessir hópar halda oft að lífið sé annað hvort svart eða hvítt og að hægt sé að stilla öllum málum upp út frá réttindum og mældum hlutum. Sumar opinberar starfsstéttir hafa t.d. alltaf lagt áherslu á að allur hópurinn njóti sömu réttinda, óháð frammistöðu. Ómögulegt er að umbuna þeim sem skara fram úr, standa sig betur en aðrir – nei allir skulu vera á sama stað og frammistaða einstaklinganna verður aukaatriði. Með því er verið að halda hlífiskildi yfir veikleikunum – yfir þeim sem ekki standa sig. Og besta fólkið gefst oft upp og fer á annan vettvang.

Ég hlustaði á Egil Helgason og Drífu Snædal í Kastljósinu í kvöld og velti fyrir mér:

  • Er hugsanlegt að það halli eitthvað á konur í Silfrinu?
  • Eða er hugsanlegt að þær séu að reyna að fá stöðu sem þær eiga ekki skilið?
  • Getur verið að það séu helst þessar tilteknu konur sem hafi skapað sér sérstöðu með því að tala mikið um klám og kvennréttindamál og Egill bjóði þeim því til að ræða það í þættinum (Egill segist reyndar ekki hafa boðið þeim til að ræða klám)?
  • Eða getur verið að Egill sé svona skakkur í þessu – gegn konum?

Hver sem svörin eru – jafnvel þó halli á konur í Silfri Egils - er ljóst að þessi aðferð mun ekki virka. Í stað þess að konur fari fram með þessum hætti ættu þær kannski að spyrja sig ; „hvað get ég sjálf gert til að bæta stöðu mína og árangur? Hvað get ég lagt af mörkum?“

Og margir einstaklingar gera þetta – og ná árangri, á eigin verðleikum en ekki af því þeir eru af þessu eða hinu kyninu. Margir þessara einstaklinga eru konur sem taka ábyrgð á eigin árangri og stöðu.

Hvað segja konur – gætu þær tekið meiri ábyrgð á eigin stöðu? Eða snýst þetta kannski eftir allt um að Egill komi þeim betur að umræðum í Silfrinu – sem konur?

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Ráð til femínista .. og hinna

Annars lagið blossa hér upp heitar umræður um jafnréttindi og kvennréttindi þar sem oftast takast á annars vegar harður og fylginn sér kjarni kvenna í hlutverki femínista og hins vegar nokkrir karlmenn.

Karlmennirnir eru oftast ekki þeir sömu á milli „umferða“, en hinn hópurinn samanstendur oft af sömu sjálfskipuðu fulltrúum íslenskra kvenna sem fara fram í nafni femínista og jafnréttis. Afar fáir karlmenn þora út á þann vígvöll sem þessi umræða er, enda gæti viðkomandi verið stimplaður sem and-femínísti og það sem verra er, karlremba sem er á móti jafnrétti. Gæta þarf tungu sinnar.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort hugsanlega sé búið er að skamma íslenska karlmenn svo mikið s.l. ár og áratugi (sem aðferð í jafnréttisbaráttu kvenna) að mörgum þeirra líði orðið eins og sakamönnum - og grípa þá oft til furðulegra raka og varna. Margir þeirra held ég að viti ekki hvernig í raun á að bregðast við þessu – enda er svo sem ekki mikið um praktískar tillögur til batnaðar, eða hvað?

Þó margt hafi batnað í jafnréttismálum s.l. ár og áratugi er ég sammála þeim sem segja að það halli á konur í sumum málum og ég er sammála því að í mörgum þeirra er hægt að gera eitthvað í málinu á meðan önnur liggja kannski að einhverju leyti í eðlismun karla og kvenna. Ég er líka á því að í sumum tilfellum halli á karlmenn t.d. þegar þeir eru einstæðir feður og ég gæti nefnt fleiri hópa eða mál sem færa mætti til betri vegar á Íslandi.

Auðvitað velur fólk bara þær aðferðir sem hentar því og í sjálfu sér er aukaatriði hver hún er svo fremi sem hún meiði ekki aðra – og skili árangri. "Aggressivar" aðferðir í jafnréttismálum voru nauðsynlegar hér áður fyrr en ég hef efasemdir um að þær séu endilega málið núna. Ég er ekki með réttu aðferðirnar en ég er ekki viss um að þessar tveggja fylkinga skylmingar skili árangri.

Ráðið til femínista – og hinna – er frá Dr. Covey R. Covey sem bæði rannsakaði og skrifaði bók um 7 venjur árangursríks fólks, og nota bene með árangursríku fólki á hann við fólk sem nær árangri í lífinu – bæði í vinnu og einkalífi:

"Leitastu fyrst við að skilja aðra og reyndu aðeins þegar það er komið, að fá aðra til að skilja þig".

Já, það er ábyggilega gott að setja sig í spor annarra og sjá hlutina þaðan – ég hefði að minnsta kosti gott af því oftar.


Kannski getum við með þessu komið í veg fyrir að „fylkingarnar“ treysti varðstöðu sína og mikilvæg mál þokist ekkert áfram. Almennt er fólk nefnilega vel meinandi – bæði konur og karlar.

Lífeyrissjóðir : 30 milljarðar farnir

Athyglisvert er að velta fyrir sér stöðu lífeyrissjóða almennings á hlutabréfamarkaðnum nú þegar hann hefur lækkað um einn fjórða eða rúm 24% frá því hann náði toppi ársins þann 18. júlí 2007.

Ef bara eru skoðaðir eignarhlutir lífeyrissjóða í viðskiptabönkunum þremur (skv lista yfir 20 stærstu hluthafa), þ.e. Landsbanka, Kaupþingi og Glitni, kemur í ljós að í dag virðast lífeyrissjóðir saman eiga rúma 108 milljaðra að markaðsvirði í bönkunum þremur. Ef við gefum okkur að eignarhlutir þeirra hafi verið þeir sömu í júlí s.l. hafa þessir 108 milljarðar verið rúmum 30 milljörðum hærri, þ.e.a.s á rúmum 5 mánuðum hefur eignarhlutur þeirra í þessum þremur bönkum þá lækkað um rúma 30 milljarða.

Stærstu eignina eiga þeir í bankanum sem hefur lækkað mest – eða Kaupþingi þar sem þeir samanlagt eru með rúm 9% – en gengi hans hefur lækkað um 28% frá því það var hæst á þessu ári í júlí. Verðmætarýrnun lífeyrissjóðanna bara í þeim banka einum virðast nema tæpum 24 milljörðum króna.

Kannski er stærsta spurningin núna sú hvað eðlilegt sé að lífeyrissjóðir almennings geri við þessar fjárfestingar sínar við markaðsaðstæður sem þessar ?

Ýmislegt kemur þar til greina.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Hjarðhegðun meðalmennskunnar

Fátt er skemmtilegra og áhrifaríkara en að finna fyrir sannfæringu sjálfstæðs fólks. Oft gengur hún þvert á meginlínur fjöldans eða hefðbundnar línur og þannig fólk þarf oft að synda á móti straumnum. Fáir hafa hins vegar raunverulegt sjálfstæði og þor þegar hjarðstemmning myndast – og þá þora jafnvel ekki vel hugsandi einstaklingar að fylgja sinni sannfæringu eftir.

Það hættulega er að komi einstaklingur með sterk leiðtoga-element og illan ásetning þá getur hann fengið þessa hjörð til að elta sig. Og það hefur gerst - nægir þar að nefna Hitler og Stalín í þessu sambandi – eða Milosevic til að fara eitthvað nær í tíma. Fjöldi góðs fólks elti þessa fíra á sínum tíma – á grundvelli hjarðhegðunar. Auðvitað er þetta kannski verstu dæmin sem ég nefni en þetta gerist nú samt.

Hér heima kemur þetta mjög skírt fram í pólitík. Oftast nægir að vita hvaða flokki viðkomandi tilheyrir til að vita afstöðu hans til mála og fólk gengur oft hart fram í að verja skoðanir eða gjörðir flokksins. Stundum hefur maður á tilfinningunni að margir gangi lengra í þessum efnum en þeir væru til í gangvart eigin fjölskyldu - alveg ótrúlegt. Hér er ég auðvitað að tala um fylgisveina flokkanna, ekki pólitíkusana sjálfa. Og það verður leiðigjarnt að hlusta á umræðuþætti þar sem þetta fólk mætir og talar bara út frá línunni – ég vorkenni stundum Agli Helgasyni sem hlýtur að vera að leita að þessu sjálfstæða hugrakka fólki. Ekki það að skýr sjónarmið í sitthvora áttina séu líka góð með.

Ég er fyrir löngu orðinn hundleiður á að heyra fylkingarnar í REI málinu verja sinn heimavöll með öllum tiltækum ráðum út frá því að „hinir“ hafi gert allar vitleysurnar og „mitt fólk“ ekki neinar. Það væri verulega gaman að sjá alvöru umfjöllun um hvað var vel gert og hvað fór í raun miður – sama hverjum það tengist.

Er einhver sjálfstæðismaður til í að fjalla af heiðarleika um hvað sjálfstæðismenn í borginni gerðu rangt í REI málinu? Og er einhver framsóknarmaður til að fjalla af heiðarleika um hvað framsóknarmenn gerðu rangt í REI málinu?

Þegar það gerist mun ég í fyrsta skipti lesa umfjöllun um REI málið af athygli.

laugardagur, 24. nóvember 2007

Færeyingur besti forstjórinn?

Eitt meginmarkmiða fyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkað er að sigra úrvalsvísitöluna eða að gengi þess hækki að minnsta kosti eins og úrvalsvísitalan. Úrvalsvítitalan sýnir, eins og við vitum, meðalþróun á markaðnum og því má segja að fyrirtæki sem hefur hækkað jafn mikið og úrvalsvísitalan sé meðalfyrirtæki á markaðnum þann tíma sem skoðaður er - sem þó er talið gott. Nú eru auðvitað ekki öll félög á markaði í úrvalsvítitölunni en væntanlega miða samt öll fyrirtæki þróun á verðmæti sínu við hana.



Þegar 5 mestu hækkanir og lækkanir það sem af er árinu eru skoðaðar (mynd að ofan) sést að það er Færeyska fyrirtækið P/F Atlantic Petroleum (Wilhelm E. Petersen forstjóri) sem stingur öll önnur fyrirtæki af og markaðurinn metur 2,5 sinnum verðmætara en það var í upphafi ársins.

Bandarískur forstjóri (David Baker) stýrir hins vegar Flögu sem hefur lækkað mest frá áramótum en verðmæti þess er metið rúmlega helmingi minna en það var fyrir 11 mánuðum.


Athygli vekur hins vegar að aðeins eitt stjörnufyrirtækjanna íslensku (fjármálafyrirtækin) er á topp fimm listanum eða Landsbankinn. Þau hafa hins vegar hækkað verulega sé horft lengra aftur í tímann.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Kannanir gegn glæpum

Kaninn leggur mikið upp úr öryggismálum – sérstaklega eftir 9/11. Og það er gott þegar maður flýgur yfir til þeirra að finna fyrir festunni og einbeitingunni í að halda vágestunum úti.

Á föstudaginn var flaug ég til Boston og sú ferð tekur rúmlega 5 klst í loftinu. Auðvelt er að skipta þeim tíma í þrennt : Einn þriðji fer í flugtak og blund – svo verður rænan algjör og við taka vangaveltur um hvenær maturinn komi og hvað verði í matinn. Maður stendur sig að því að vera að skoða flugpésa til að átta sig á þessu. Seinasti þriðjungur flugsins til USA fer í útfyllingu á innflytjenda pappírum.


Fyrst eru pappírarnir óskiljanlegir en þó er ljóst að maður á að fylla út eitt hvítt blað og eitt grænt. Í hátalarakerfi flugvélarinnar fær maður skilaboð aftur og aftur um að útfylling þessara forma sé algjört lykilatriði og fólk komist ekki inn í USA án þeirra. Góð tilfinning – ekkert fer fram hjá kananum. Svo byrjar maður að fara yfir blaðið og áttar sig á því að þetta er skoðanakönnun. Maður er m.a. spurður hvort maður sé:

  • andlega vanheill
  • eiturlyfjaneytandi
  • hafi verið rekin úr USA eða reynt með svikum að komast inn
  • eða hafi verið staðinn að njósnum eða hvort maður hafi tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi – já, maður er jafnvel spurður hvort maður hafi verið þátttakandi í ofsóknum Nasista í Þýskalandi 1933 til 1945! Ég veit ekki með spurninguna en hún er í svo smáu letri að þeir sem voru uppi á þessum árum verða örugglega í vandræðum með að lesa hana, hvað þá meira.

Eftir að hafa svarað ofangreindum atriðum með því að setja „x“ við YES eða NO og skrifað sínar persónupplýsingar FJÓRUM sinnum á sama blaðið, þá sér maður að þetta er auðvitað bara afþreyging. Börnin fá LEGO en við fullorðin fáum innflytjenda pappíra – og fyllum þá út samviskusamlega eins og þeir skipti máli – og meira að segja flugþjónarnir leika þetta fantavel. Þetta er náttúrulega bara tilgangslítil vitleysa – alla leið! Sem betur fer erum við Íslendingar ekki með svona vitleysu í gangi – eða kannski ættum við bara að fá Capacent til að finna nauðgara og aksturstúta á mánudögum með því að gera skoðanakönnun.


En ég sé alveg fyrir mér hvernig þetta gerist. Ég hef unnið með svona fólki. Það hefur líklega verið atferlisfræðingur sem fékk þessa hugmynd – árið 1976 - og hún hefur verið við líði síðan. Líklega veit enginn af hverju en þetta er hins vegar algjört lykilatriði. Enda er öryggi USA undir þessu komið.

En flugið styttist þó við þetta.

föstudagur, 16. nóvember 2007

Er Slóvenía fyrirsláttur Símans ?

Í gær tilkynnti stjórn Skipta að hún hefði óskað eftir frestun á skráningu Símans á markað vegna þátttöku sinnar í söluferli á Telecom Slovenije. Það eitt er athyglisvert út af fyrir sig þar sem Skipti keypti félagið 5. ágúst 2005 (á 66,7 makr) m.a. með þeim skilyrðum að (a) ekki minna en 30% í félaginu verði boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007 og (b) að á sama tíma verði Síminn skráður á markað. Geymum það aðeins.

Enn athyglisverðara er að velta fyrir sér orsökum þessa hjá Símanum því ekki eru nema rétt tveir mánuðir síðan Brynjólfur Bjarnason, þáverandi forstjóri, viðraði þá hugmynd (Markaðurinn 12. september 2007) að skráningu kunni að verða frestað – og þá á allt annarri forsendu eða vegna markaðsaðstæðna. Skoðum þessar markaðsaðstæður aðeins:

  • Frá því Skipta kaupir Símann (5. ágúst 2005) hækkaði úrvalsvísitalan mest um 99,7% 18. júlí í sumar. Ef kaupverð Símans er framreiknað út frá því var Síminn orðinn 133,2 makr virði (auðvitað hafa fleiri þættir en úrvalsvísitalan áhrif á verðmæti en notum þessa til einföldunar)
  • Þegar Brynjólfur viðrar frestun vegna markaðsaðstæðna (12. september 2007) hafði úrvalsvísitalan lækkað um 12,7% frá því hún var hæst 18. júlí – og með sömu reikniaðferð hafði verðmætið lækkað um 16,9 makr
  • Í gær hafði úrvalsvísitalan lækkað enn meira eða um 18,8% og verðmætið orðið 25,0 makr lægri en það var 18. júlí 2007 – sé úrvalsvísitalan notuð sem viðmið

Já, markaðsaðstæður voru erfiðar og markaðir „órólegir“ í september, en aðstæður eru enn erfiðari nú.

Er hugsanlegt að almenningur og aðrir fjárfestar verði af milljarða verðmætaaukningu ef skráning frestast og Síminn kaupir í Telecom Slovenije eða úrvalsvísitalan tekur góðan kipp upp á við .. og auðvitað verðmæti Símans ? Er hugsanlegt að markaðsaðstæður séu raunveruleg orsök beiðninnar um frestun – eins og Símamenn sögðu í september ? Eða er þetta bara ótrúleg tilviljun ?

Hvað er rétt að fjármálaráðuneytið geri nú ?