þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Kannanir gegn glæpum

Kaninn leggur mikið upp úr öryggismálum – sérstaklega eftir 9/11. Og það er gott þegar maður flýgur yfir til þeirra að finna fyrir festunni og einbeitingunni í að halda vágestunum úti.

Á föstudaginn var flaug ég til Boston og sú ferð tekur rúmlega 5 klst í loftinu. Auðvelt er að skipta þeim tíma í þrennt : Einn þriðji fer í flugtak og blund – svo verður rænan algjör og við taka vangaveltur um hvenær maturinn komi og hvað verði í matinn. Maður stendur sig að því að vera að skoða flugpésa til að átta sig á þessu. Seinasti þriðjungur flugsins til USA fer í útfyllingu á innflytjenda pappírum.


Fyrst eru pappírarnir óskiljanlegir en þó er ljóst að maður á að fylla út eitt hvítt blað og eitt grænt. Í hátalarakerfi flugvélarinnar fær maður skilaboð aftur og aftur um að útfylling þessara forma sé algjört lykilatriði og fólk komist ekki inn í USA án þeirra. Góð tilfinning – ekkert fer fram hjá kananum. Svo byrjar maður að fara yfir blaðið og áttar sig á því að þetta er skoðanakönnun. Maður er m.a. spurður hvort maður sé:

  • andlega vanheill
  • eiturlyfjaneytandi
  • hafi verið rekin úr USA eða reynt með svikum að komast inn
  • eða hafi verið staðinn að njósnum eða hvort maður hafi tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi – já, maður er jafnvel spurður hvort maður hafi verið þátttakandi í ofsóknum Nasista í Þýskalandi 1933 til 1945! Ég veit ekki með spurninguna en hún er í svo smáu letri að þeir sem voru uppi á þessum árum verða örugglega í vandræðum með að lesa hana, hvað þá meira.

Eftir að hafa svarað ofangreindum atriðum með því að setja „x“ við YES eða NO og skrifað sínar persónupplýsingar FJÓRUM sinnum á sama blaðið, þá sér maður að þetta er auðvitað bara afþreyging. Börnin fá LEGO en við fullorðin fáum innflytjenda pappíra – og fyllum þá út samviskusamlega eins og þeir skipti máli – og meira að segja flugþjónarnir leika þetta fantavel. Þetta er náttúrulega bara tilgangslítil vitleysa – alla leið! Sem betur fer erum við Íslendingar ekki með svona vitleysu í gangi – eða kannski ættum við bara að fá Capacent til að finna nauðgara og aksturstúta á mánudögum með því að gera skoðanakönnun.


En ég sé alveg fyrir mér hvernig þetta gerist. Ég hef unnið með svona fólki. Það hefur líklega verið atferlisfræðingur sem fékk þessa hugmynd – árið 1976 - og hún hefur verið við líði síðan. Líklega veit enginn af hverju en þetta er hins vegar algjört lykilatriði. Enda er öryggi USA undir þessu komið.

En flugið styttist þó við þetta.

Engin ummæli: