sunnudagur, 25. nóvember 2007

Hjarðhegðun meðalmennskunnar

Fátt er skemmtilegra og áhrifaríkara en að finna fyrir sannfæringu sjálfstæðs fólks. Oft gengur hún þvert á meginlínur fjöldans eða hefðbundnar línur og þannig fólk þarf oft að synda á móti straumnum. Fáir hafa hins vegar raunverulegt sjálfstæði og þor þegar hjarðstemmning myndast – og þá þora jafnvel ekki vel hugsandi einstaklingar að fylgja sinni sannfæringu eftir.

Það hættulega er að komi einstaklingur með sterk leiðtoga-element og illan ásetning þá getur hann fengið þessa hjörð til að elta sig. Og það hefur gerst - nægir þar að nefna Hitler og Stalín í þessu sambandi – eða Milosevic til að fara eitthvað nær í tíma. Fjöldi góðs fólks elti þessa fíra á sínum tíma – á grundvelli hjarðhegðunar. Auðvitað er þetta kannski verstu dæmin sem ég nefni en þetta gerist nú samt.

Hér heima kemur þetta mjög skírt fram í pólitík. Oftast nægir að vita hvaða flokki viðkomandi tilheyrir til að vita afstöðu hans til mála og fólk gengur oft hart fram í að verja skoðanir eða gjörðir flokksins. Stundum hefur maður á tilfinningunni að margir gangi lengra í þessum efnum en þeir væru til í gangvart eigin fjölskyldu - alveg ótrúlegt. Hér er ég auðvitað að tala um fylgisveina flokkanna, ekki pólitíkusana sjálfa. Og það verður leiðigjarnt að hlusta á umræðuþætti þar sem þetta fólk mætir og talar bara út frá línunni – ég vorkenni stundum Agli Helgasyni sem hlýtur að vera að leita að þessu sjálfstæða hugrakka fólki. Ekki það að skýr sjónarmið í sitthvora áttina séu líka góð með.

Ég er fyrir löngu orðinn hundleiður á að heyra fylkingarnar í REI málinu verja sinn heimavöll með öllum tiltækum ráðum út frá því að „hinir“ hafi gert allar vitleysurnar og „mitt fólk“ ekki neinar. Það væri verulega gaman að sjá alvöru umfjöllun um hvað var vel gert og hvað fór í raun miður – sama hverjum það tengist.

Er einhver sjálfstæðismaður til í að fjalla af heiðarleika um hvað sjálfstæðismenn í borginni gerðu rangt í REI málinu? Og er einhver framsóknarmaður til að fjalla af heiðarleika um hvað framsóknarmenn gerðu rangt í REI málinu?

Þegar það gerist mun ég í fyrsta skipti lesa umfjöllun um REI málið af athygli.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Þegar það gerist mun ég í fyrsta skipti lesa umfjöllun um REI málið af athygli."

... semsagt aldrei.