miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Eigin ábyrgð kvenna

Ég hef aldrei verið í hópi þeirra sem gera kröfur til annarra í þeim tilgangi að bæta eigin stöðu. Ég tek það fram að ég er ekki að tala um fólk sem býr við erfiðar aðstæður eða óréttlæti sem ógnar lífi þeirra, öryggi og frelsi. Ég er að tala um hinn hefðbundna Íslending.

Í starfi mínu sem ráðgjafi hitti ég tvenns konar fólk. Annars vegar fólk sem stöðugt ætlast til þess að aðrir geri eitthvað til að bæta stöðu þess eða árangur og hins vegar fólk sem tekur stjórn á eigin árangri, sýnir frumkvæði og tekur þannig ábyrgð á eigin stöðu.

Við eigum heilar stéttir eða hópa fólks sem stöðugt ætlast til þess að aðrir geri eitthvað til að bæta þeirra stöðu. Innan þeirra eru reyndar til einstaklingar sem taka ábyrgð á eigin árangri og ná langt. Yfirleitt skilur á milli þeirra og hópsins sem þeir „eiga“ að tilheyra. Og þetta eru bæði konur og karlar.

Þessir hópar halda oft að lífið sé annað hvort svart eða hvítt og að hægt sé að stilla öllum málum upp út frá réttindum og mældum hlutum. Sumar opinberar starfsstéttir hafa t.d. alltaf lagt áherslu á að allur hópurinn njóti sömu réttinda, óháð frammistöðu. Ómögulegt er að umbuna þeim sem skara fram úr, standa sig betur en aðrir – nei allir skulu vera á sama stað og frammistaða einstaklinganna verður aukaatriði. Með því er verið að halda hlífiskildi yfir veikleikunum – yfir þeim sem ekki standa sig. Og besta fólkið gefst oft upp og fer á annan vettvang.

Ég hlustaði á Egil Helgason og Drífu Snædal í Kastljósinu í kvöld og velti fyrir mér:

  • Er hugsanlegt að það halli eitthvað á konur í Silfrinu?
  • Eða er hugsanlegt að þær séu að reyna að fá stöðu sem þær eiga ekki skilið?
  • Getur verið að það séu helst þessar tilteknu konur sem hafi skapað sér sérstöðu með því að tala mikið um klám og kvennréttindamál og Egill bjóði þeim því til að ræða það í þættinum (Egill segist reyndar ekki hafa boðið þeim til að ræða klám)?
  • Eða getur verið að Egill sé svona skakkur í þessu – gegn konum?

Hver sem svörin eru – jafnvel þó halli á konur í Silfri Egils - er ljóst að þessi aðferð mun ekki virka. Í stað þess að konur fari fram með þessum hætti ættu þær kannski að spyrja sig ; „hvað get ég sjálf gert til að bæta stöðu mína og árangur? Hvað get ég lagt af mörkum?“

Og margir einstaklingar gera þetta – og ná árangri, á eigin verðleikum en ekki af því þeir eru af þessu eða hinu kyninu. Margir þessara einstaklinga eru konur sem taka ábyrgð á eigin árangri og stöðu.

Hvað segja konur – gætu þær tekið meiri ábyrgð á eigin stöðu? Eða snýst þetta kannski eftir allt um að Egill komi þeim betur að umræðum í Silfrinu – sem konur?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll nafni, kominn í bloggið ?

Eyjan er flott, svo mikið er víst.

Ágætar greinar hjá þér undanfarið og málefni sem er þörf á að ræða. Ég er sammála þér að það eiga allir að taka ábyrgð á sjálfum sér og vera þátttakandi í egin lífi, ekki áhorfandi. Mér finnst stundum að femenístar séu nokkuð öfgafullar í sínum skoðunum en oft er það svo sem gott að fá hugvekjur sem ganga langt. En stundum fær maður það samt á tilfinninguna að sá hópur sem á undir högg að sækja og allir hafa skotleyfi á, sé hinn miðaldra hvíti karlmaður sem ekki má orðið tjá sig án þess að það sé rakið til kvenfyrirlitningar eða rasisma.
Áfram konur og menn !

Jón Garðar sagði...

Sælir nafni - gaman að sjá þig hér, sem vonandi verður bara sem oftast!

Nafnlaus sagði...

Fólk með lítið sjálfstraust forðast að axla ábyrgð á eigin vanda og varpar henni gjarnan yfir á aðra.

Hjá róttækum múslimum eru það karlarnir sem varp sökinni á eigin vandræðum fyrir á konur eins og þeir geta. Hjá róttækum femínistum er þessu svo alveg öfugt farið.

Róttæknin varpar ábyrgðinni yfir á aðra og er því vera róttæklingunum meira til trafala heldur en til framdráttar.