fimmtudagur, 6. desember 2007

Hannes Smárason er ekki allur

Nokkuð hefur borið á sjálfskipuðum útfararstjórum Hannesar Smárasonar (40 ára) og flestir virðast búnir að afskrifa hann. Samt er ekki nema ár síðan „dómnefnd Markaðarins“ og „vel á annar tugur sérfræðinga í viðskiptalífinu" valdi hann mann ársins í viðskiptalífinu.

Ég þekki manninn ekkert – ekkert frekar en þorri þeirra sem fjalla um hann þessa dagana. Hann hefur einhvern veginn stuðað fjöldann og það virðist vera skotleyfi á hann, enda hefur hann farið hratt yfir og samhliða því - nánast reglulega - staðið í orrahríð ýmissa ásakana - allt frá því að vera sakaður um að fara með almenningshlutafélag sem sitt eigið og yfir í þetta:

Já, hann var eiginlega aldrei alveg samþykktur af fjöldanum – einn af þessum „nýríku sem þykjast mega og geta allt“ segja sumir.

En bakgrunnur Hannesar er eins og best gerist. Hann er með háskólagráður í vélaverkfræði og stjórnun (BS og MBA) frá bestu háskólum í heimi (MIT) og í fjögur ár var hann ráðgjafi hjá virtasta ráðgjafarfyrirtæki heims (McKinsey & Co. í Boston). Það komast engir meðalmenn í gegnum þessa skóla og McKinsey ræður bara til sín besta fólkið – bæði í hugsun og framkvæmd.

Oft fannst mér ég sjá hugmyndafræði McKinsey í aðgerðum Hannesar. Fjárfestingar í fyrirtækjum þar sem hægt var að selja eignir án þess að reksturinn líði fyrir það, þar sem hægt var að brjóta einingar upp, raða þeim öðruvísi saman – kannski kaupa einhverjar minni til að styrkja sumar þeirra - og jafnvel selja aðrar. Og allt með áhersluna á að auka verðmæti hluthafans. Oft gengur mikið á þegar þetta er gert – og blóðið lekur. Þetta virkar miskunnarlaust og þeir sem standa sig „best“ í þessu verða oft dæmdir af almannarómnum sem ósvífnir og samviskulausir eiginhagsmunaseggir.

Stjórnendur – eða bara fólk yfirleitt – sem er líklegt til að láta til sín taka í lífinu og ná árangri einkennist oft af fimm atriðum:

  • Það hefur ástríðu til að ná árangri í því sem það er að gera
  • Það hefur kraft til að láta hlutina gerast – er duglegt
  • Það getur virkjað aðra í kringum sig
  • Það getur tekið erfiðar ákvarðanir – er fljótt að því
  • Og það nær stöðugt árangri
Ég hef aldrei unnið með Hannesi en ég þykist sjá hann í flestum þessum punktum, kannski öllum – nema einum verður maður líklega að segja núna.

Hannes á líka góðan hlut í FL Group (13,7%) og stefnir að því að verða kjölfestan í Geysir Green Energy (23,0%). Fjármálageirinn er kjölfesta hlutabréfamarkaða um allan heim og margir spá orkugeiranum miklum vexti.


Já, við eigum eftir að sjá meira til Hannesar Smárasonar. Síðustu dagar eru honum án efa mikil lexía – en ég yrði ekki hissa þó hann stæði mjög fljótt upp aftur og léti til sín taka í verðmætasköpun í íslensku viðskiptalífi. Og ætli einhverjir muni ekki vilja ferðast með honum þá eins og nú – þó þeir verði kannski nær kantinum, tilbúnir af stökkva af vagninum ef hann lendir í óvæntri ósléttu.

Engin ummæli: