föstudagur, 14. desember 2007

Lúðar

Klukkan er orðin rúmlega 10 að kvöldi þegar ég loksins kemst upp á hótel og mér til mikils léttis er eldhúsið opið til 11. Ég panta mér þessa fínu máltíð og er að reyna að lesa Herald Tribune og Financial Times á milli rétta. Ég veit ekki hvað er að gerast – en ég sé ekki vel á blöðin – hugsanlega vegna þreytu, en kannski vegna þess að borðið mitt, þrátt fyrir að vera með gott útsýni við gluggann, lendir á milli ljósa og ég er því að lesa í hálfgerðu myrkri.

Ég geispa ... reyni að bera mig mannalega – en hressist þegar fer að líða á eftirréttinn (ís). Eftir matinn færi ég mig um 10 metra - á barinn – eins og sagt er. Gott að fá sér létta hressingu fyrir svefninn.

Það er ekki mikið af fólki á barnum – enda fimmtudagur – og ég sest við hátt borð (sit eins og á barstól) úti í horni. Búinn að panta mér drykk (gin og tónik). Músíkin er frekar slök, fönkí – en andrúmsloftið rólegt – og DJ‘inn er mjög fönki og skemmtir sér greinilega vel. Dökkhærður, síðhærður, með skegg, sólgleraugu – í þröngum gulum bol þó hann sé ekki alveg skorinn sjálfur – þó ekki feitur – og hann fílar músíkina sína – með sérstaka hreyfingu með hverju lagi ... já, það er eitthvað sjarmerandi við þetta.

Skyndilega stendur maður fyrir framan mig – „can I take picture of you?“ spyr hann og horfir á mig kolsvörtum augum. „Mynd af mér?“ hugsa ég, hvað er að gerast – hann brosir, og segir „I´m making an album“ – og ég segi, „yes of-course“ og horfi íbygginn fram fyrir mig á meðan hann smellir af myndavélasímanum sínum ... eins og ég muni kannski koma í moggann, eða eitthvað.

Ég sé að hann fer á flest borðin og fær að taka myndir – ljúfur, þeldökkur strákur. Hann sest hjá félögum sínum á borði við hliðina á mér – þeir horfa á mig, blikka góðlátlega þennan hrædda Íslending.

Við barinn byrjar par að dilla sér með músíkinni. Hann er stór, stór um sig, dökkhærður með gleraugu – og skegg, frekar lúðalegur. Hún er í mussu, eitt bros og klunnalegir skór. Þetta er ekkert sérstakt hjá þeim – en samt draga þau að sér hógværa athygli flestra – það myndast einhver stemming, allir brosa og eru léttir á brún - hann kann EKKI að dansa – bara engan veginn – en dansar samt vel einhvern veginn, og hún brosir svo ótt og títt með danstöktunum sínum að augljóst er að hún er í alsælu – henni er sama um allt og alla, það er bara svo gaman.

Ég stend mig að því að brosa – er eitthvað til meira ekta en þetta – fólk sem ekki kann að dansa ... en dansar samt vel og af innlifun sem ég efast um að upplifa nokkurn tíma sjálfur

Skyndilega stendur barþjónninn fyrir framan mig og segir „I am taking the last order from the bar, would you like something?“ Ég panta drykk – og þjóninn fer borði til borðs og tekur pantanir. Hann fer á þrjú borð, fjögur, fimm og sex. Svo gengur hann rösklega að barborðinu, slær eitthvað í kassann sinn og stuttu seinna er hann mættur með illberandi bakka af áfengum glösum – henn ber hann samt af fádæma öryggi. Hann gengur rösklega á milli borða, fumlaust með fullkomið tillit til gestanna sem ekki eru alltaf að velta honum fyrir sér

Hann lætur drykkinn minn á borðið mitt, hljóðalaust – en skilur miða eftir til að kvitta – stuttu seinna kemur hann með tómann bakkann og tekur uppákvittaðann miðann frá mér. Fumlaust.

Albúmasmiðurinn kemur allt í einu og býðst til að sýna mér verkið sitt – vandræðalegur tek ég brosandi við myndavélinni hans – um leið rennur myndasýning af stað – og ég festist við skjáinn – fágunin grípur mig strax ... meira að segja myndin af mér er sveipuð dulúðlegum blæ – þetta er þá listamaður eftir allt saman.

Allt í einu gengur barþjónninn framhjá – og að plötusnúðinum – þeir talast við, og svo fer barþjóninn á bak við barborðið og talar við yfirmanninn. Þeir skiptast á orðum – og stuttu seinna hættir músíkin ... og ljósin kveikna. Ég lít yfir salinn og öll glös eru horfin af borðunum, barþjónninn er að þurrka af einu borðanna - og þá eru þau öll orðin hrein.

Allt í einu átta ég mig á því að allir gestirnir eru dökkir – myndasmiðurinn er kolsvartur, barþjónninn líklega frá Puerto Ríko og yfirmaðurinn frá Mexico. Það er langt síðan ég hef upplifað jafn ljúfa stemmningu og jafn mikla fágun og fagmennsku í þjónustu – og stemmning gestanna var innileg, einstök en ekki truflandi fyrir þá sem vildu ró og næði.

Erum við hvíta fólkið hugsanlega lúðar þessa lífs ?

Engin ummæli: