þriðjudagur, 11. desember 2007

Evrulán hættuleg

Nú stendur víst til að bjóða okkur Íslendingum íbúðalán á evrópskum kjörum – og margir eru eflaust hrifnir af því.

Flestir íbúðalán-takendur eru fjölskyldur sem flestar eru með lántökunni að ráðast í sínar stærstu fjárfestingar – og oft að spenna bogann um leið. Og íbúðalán eru lán til langs tíma – allt að 40 ára.

Lykilatriðið fyrir það fólk er að geta gengið að kjörunum nokkuð stöðugum. Eitt af grundvallaratriðum þess er að innkoma fólks (tekjur) og útgjöld – m.a. fasteignalánin – sveiflist saman. Gengi gjaldmiðla sveiflast nefnilega – það er pottþétt – spurning er bara hvenær og hversu mikið. Tekjur fólk sveiflast hins vegar ekki eins mikið.


Þann 11. janúar s.l. stóð EVRAN hæst í 94,6 en lægst þann 18. júlí – eða í 82,1. Þetta er 12,6% sveifla.


Það er hins vegar ekkert nýtt að einstaklingar taki erlend lán sem þeir ætla að borga af með íslenskum tekjum. Þegar rekstrarleigumöguleikar á bílum buðust hér fyrst var rekstrarleigan gengistryggð (veit ekki hvort það er eins enn) og margir létu það verða sín fyrstu og einu kynni af erlendri lántöku með íslenskum tekjum. Fæstir reikna nefnilega með neikvæðu sveiflunum – án þeirra er þetta auðvitað frábært.


Sumir segja að þróunin á hlutabréfamarkaðnum beri sömu einkenni og sterk evru-tenging – slæmir eða góðir hlutir annars staðar í heiminum ráða mestu um hvernig gengur hér. Mikil lækkun á erlendum mörkuðum keyra lækkunina hér s.l. fimm mánuði, og við fáum lítið við ráðið. Ég er ekki að segja þetta gegn upptöku evrunnar almennt – en lán fjölskyldna í einum gjaldmiðli og tekjur í öðrum er hættuleg hugsun.

Það er glapræði að ota fólki með evru-glampa í augunum – kannski í bland við vanþekkingu – út í að taka erlend lán þar sem heimili og öryggi fjölskyldu er undir – ekki nema evrulánveitandinn bjóða fjölskyldum gjaldeyrisvarnir, eins og tíðkast við fjármögnun fyrirtækja. En jafnvel með þeim verða fyrirtæki fyrir miklum sveiflum í hagnaði vegna gjaldeyrissveiflna.


Hér þarf fólk að hugsa sig vel um. Gott gengi í dag skiptir engu máli – engu – og gengið mun sveiflast en það gera laun fólks almennt ekki með sama hætti.

Evrulánin eru hins vegar góð – á evrusvæðum – enda er fólk þar með laun í evrum.


9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eru þá verðtryggð lán þá ekki líka hættuleg? Laun eru ekki verðtryggð eins lánin ... og verðtrygging líklegri en verðhjöðnun til lengri tíma. Hvað veit ég?

Borgar B.

Nafnlaus sagði...

Bara besta mál að fá þennan kost inn á markaðinn.

Hversu mikið þarf gengið að sveiflast áður en afborganir og vextir toppa vísitöluna, þetta voru jú gengistryggð lán en ekki vísitölubundin.

En auðvitað á fólk að skoða málin gaumgæfilega áður en það ráðstafar framtíðartekjunum sínum í svona hluti.

Nafnlaus sagði...

Sæll Jón Garðar

eftirfarandi er skrifað af lítilli þekkingu, og bið ég þig að skýra þetta út og leyðrétta mig ef ég er að bulla.....

En ég skil ekki alveg tal þitt um að erlend langtímalán séu verri en Íslensk.

síðustu 12 mánuði hefur gengi evru lækkað um 1,6% = ca 3% vextir mv algenga vexti.
á sama tíma hafa húsnæðislán bankana borið 5 til 6,5% + verðtryggingu = 10 til 11% vextir og almenn lán borið allt að 25% vexti.

Síðustu 10 ár hefur gengi evru hækkað um ca 13% = ca 1,3% á ári + vextir. vextir á lánum + verðbætur hafa held ég verið hærri á þeim tíma.

hvað er svona óhagstætt?????

virðingarfyllst
Elías Pétursson

Jón Garðar sagði...

Sælir allir - og takk fyrir mjög góð comment.

Auðvitað eru evrulán eða erlend lán valkostur fyrir alla og ef þau eru á þýskum kjörum trúi ég að þau geti verið töluvert hagstæðari en þau íslensku. Þetta snýst hins vegar ekki bara um kjörin, heldur greiðslugetu fólks á hverjum tíma.

Reynslan sýnir að við fasteignakaup þá spennir fólk - sérstaklega yngra fólk - bogann eins hátt og kostur er. Það tekur eins há lán og það ræður við að borga.

Fyrir marga þýðir þetta það að lítið sem ekkert svigrúm er fyrir hækkanir á afborgunum – og þess vegna er mikilvægt að tekjur hangi sem mest með gjöldum. Kjarasamningar nútímans eru oftast með endurmatstengingu við verðbólgu og þannig er að minnsta kosti reynt að láta laun fylgja verðbólgu – en auðvitað tekst það ekki fullkomlega og kannski alls ekki.

Gengi EVRU hækkar kannski ekki mikið á einhverju tilteknu ári eða áratímabili – en það sveiflast hins vegar nær örugglega innan ársins – og sú sveifla getur verið fólki erfið. Evrumyndin sem ég er að horfa á núna (s.l. 10 ár) er t.d. verulega hlykkjótt. Til að líða vel með mánaðarlega afborganir af evrulánum þyrfti fólk að eiga smá varasjóð til að grípa í þegar sveiflan hækkar greiðslurnar.

Hér er algjört lykilatriði að átta sig á því að betri kjör eru fagnaðarefni – verulegt – fólk stillir sig hins vegar alltaf inn á kjörin hverju sinni, þ.e. tekur eins hátt lán og það ræður við að borga. Sveiflur geta því reynst því erfitt.

Þetta er auðvitað ekkert algilt – fyrir suma er þetta í lagi, sum tímabil koma vel út í sveiflum og sumir eru bara fyrir áhættuna. Mikill meirihluti Íslendinga tilheyrir hins vegar ekki þessum hópi – og það er oft sá hópur sem má við minnstu.

En þetta er auðvitað ekkert algalið og ágætt að hafa val – en þetta er hættulegt fyrir Íslenska fasteignakaupendur sem láta upphæð lántöku miðast við greiðslugetu.

Fyrirsögnin hjá mér hefði verið „Evrulán stórkostleg“ ef þau hefðu verið á evrópskum kjörum en tengd íslensku krónunni – a.m.k. á meðan hún er enn við líði.

Jón Garðar

Nafnlaus sagði...

Hjá hvaða banka eða annari fjármálastofnun átt þú hagsmuna að gæta ?

Nafnlaus sagði...

Tek undir með síðasta ræðumanni. Hjá hvaða fjármálafyrirtæki vinnur þú??
Hef verið að bíða eftir svona lánum í mörg ár.
Ef maður lítur á húsnæðislánamarkaðinn í mörgum Evrópulöndunum , þá sér maður hvað sá íslenski er fáránlegur.
Hét því að taka aldrei húsnæðislán á Íslandi meðan þetta system væri við lýði. Ég fagna þessum fréttum og tek ekki mark á öllum þeim apaheilum sem hafa verið að stjórna fjármálamarkaðnum sl. ár.

Nafnlaus sagði...

Jæja, eru nafnlausu meinhornin komin hingað líka :-)

Fyndið hvað allt verður ómarktækt ef menn þora ekki að koma fram undir nafni. Málefnalegt svar hjá Jóni Garðari. Evrulán eru hagstæð ef fólk ræður við sveiflur á greiðslubyrði. Punktur.

Nafnlaus sagði...

já, Lánveitendur á íslandi eru svo hugulsamir við greyið sem þurfa að fjármagna húsakaup.
Að borga lánið sitt sexfald til baka, það er bara fáránlegt.

Hvenær sér maður lán sem lækkar við afborgun?

hvers vegna er gengið að sveiflast svona svakalega?
er það ekki vegna þess að verðtryggingin er svo vitlaus?


sem dæmi að þá er verðtryggingin að elta skottið á sjálfum sér.

- Ef verðtryggingin hækkar, þá hækkar kostnaðarliðurinn "húsnæðiskostnaður"

-og vegna þess að "húsnæðiskostnaður" hækkaði,þá þarf verðtryggingin að hækka

-og vegna þess að verðtryggingin hækkaði þá
hækkar húsnæðiskostnaðurinn....

-og vegna þess að húsnæðiskostnaðurinn
hækkaði þá þarf verðtryggingin að hækka......

-og vegna þess að.........

Nafnlaus sagði...

Já Garðar, þetta var rétt hjá þér