laugardagur, 8. desember 2007

Alþýðuhetja ársins ?

(teikning : Íslenski fáninn með augum Telmu dóttur minnar þegar hún var átta ára)

Alla daga fjalla fjölmiðlar um fólk sem er þekkt fyrir eitthvað eða hefur atvinnu af því sem fjallað er um – oft fólk sem leggur sig fram um að komast í fjölmiðla. Og reglulega birtast fréttir af ríka fólkinu þegar það gefur samfélaginu, oftast einhverri stofnun þess, eða listamönnum – eins og vinsælt hefur verið um hríð.

Þetta er allt gott og blessað og skiptir auðvitað máli – þó það læðist stundum að manni sá grunur að þessar gjafir tengist oft ímyndarmyndun og að upphæð þeirra sé miðuð við þann skattaafslátt sem fæst í staðinn. En ekki ætla ég að gera lítið úr þessu framlagi – þetta skiptir líka máli og margir sem geta, leggja ekkert af mörkum.

En alþýðuhetja leggur ekki 1-2% af sér til málsstaðar. Alþýðuhetja leggur allt sitt í málstað eða til hjálpar öðrum í erfiðum aðstæðum. Alþýðuhetjan hefur afgerandi áhrif á líf annars fólks, stundum fólks sem hefur engan annan sem talar þeirra röddu eða leggur sig fram fyrir það.

Þetta er venjulegt fólk sem leggur eitthvað óvenjulegt á sig fyrir aðra. Fólk sem hefur það ekki að markmiði að verða frægt, fá viðurkenningu, skapa sér ímynd – eða fá skattaafslátt eða aðra umbun fyrir framlagið.

Stundum flytja fjölmiðlar fréttir af ótrúlegum afrekum venjulegs fólks sem bregðast rétt við tilteknum atburðum – t.d. þegar aðrir lenda í slysi. Þetta fólk leggur allt sitt fram fyrir aðra og hefur afgerandi áhrif á líf þeirra. En svo eru aðrir sem aldrei heyrist af – eða við erum orðin vön að leggi allt sitt af mörkum. Hvaða fólk er þetta á Íslandi? Hverja mynduð þið tilnefna sem alþýðuhetju Íslands 2007?

Ég sit á hótelherbergi í Stokkhólmi – nokkuð sáttur við verkefni dagsins – og horfi á CNN Heroes þar sem CNN er að fjalla um og heiðra ótrúlega fórnfýsi og afrek venjulegs fólks sem oft er að berjast fyrir málum sem við hin horfum á með blinda auganu – berjast með öllu sínu - eða fólk sem leggur líf sitt að veði fyrir aðra við erfiðar aðstæður.

Og allt í einu átta ég mig á því hvað maður hefur lagt lítið af mörkum fyrir aðra.

Engin ummæli: