mánudagur, 10. desember 2007

Forstjórar almenningshlutafélaga

Allt er tískustraumum háð. Stemmning fólks fyrir stjórnunarstílum er hverful og það sem þykir góður stíll einn daginn þykir það versta hinn daginn.

Þegar markaðurinn er á hraðri uppleið fagna allir ágengum og áhættusæknum stjórnendum og þeir sem hógværari eru líta ekkert alltof vel út – eru oft taldir af gamla skólanum, of hægfara. Svo snýst þetta við þegar markaðurinn dregst saman og áhættusæknir stjórnendur þykja allt að því hættulegir.

Hannes Smárason er t.d. frekar áhættusækinn stjórnandi – setur háleit markmið, er með óbilandi sjálfstraust og fjárfestir í áhætturekstri – jafnvel með lántöku. Í fyrra var þetta gríðarlegur kostur. Nú eru breyttir tímar og nýr forstjóri hefur a.m.k. við fyrstu sín yfirbragð hógværðar og rólyndis – þó enn eigi eftir að sýna sig hve áhættusækinn hann er. Eitt af markmiðum forstjóraskiptanna er án efa einmitt að koma þessari ásýnd áleiðis.

Sumir segja að stjórnendur almenningshlutafélaga eigi að vera helteknir af „worst-case-scenario‘s“ – einmitt svo almennur fjárfestir þurfi ekki að vera það. En það eru það bara ekki allir – eins og dæmin sanna.

Kannski ættu greiningardeildirnar að taka þátt áhættusækninnar meira – eða með augljósari hætti - inn í upplýsingagjöf sína til almennings. Einstaklingar sem kannski eru ekki virkir í fjárfestingum sínum, og leggja verulegan skerf af sinni fjárfestingagetu í eitt félag – eins og oft er - ættu að fá upplýsingar um áhættusækni stjórnandans.

Þannig geta þeir valið tvær leiðir. (1) Að fjárfesta í fyrirtæki með áhættusækinn stjórnanda – sem þeir verða að vakta vel eða (2) fjárfesta í fyrirtæki með hógværan stjórnanda – sem þeir geta treyst betur til lengri tíma.

Almennir fjárfestar hafa nefnilega tvo galla:

  • Þeir fylgjast ekki vel með markaðnum og eru oft seinir að taka ákvarðanir um kaup eða sölu
  • Þeir taka ákvarðanir um kaup eða sölu á tilfinningagrunni - kaupa þegar það er góð stemmning á markaðnum – og oft á háu verði og selja þegar markaðurinn hefur lækkað verulega – oft á töluvert lækkuðu verði
Bestu fjárfestar heims leita alltaf bestu kaupa – og selja á réttum tíma. Sá besti þeirra, Warren Buffet, er 77 ára gamall og hefur eitt fleiri árum í að bíða eftir nógu lágum verðum, en í að fjárfesta. Á tímabili hárra markaða greiðir hann hluthöfum frekar arð en að setja umframfjármagn – eða fjárfestingagetu – í ný fyrirtæki ef þau eru of dýr. Enda er árangurinn ótrúlegur – sá sem fjárfesti 10.000 dollurum í Bershire Hathaway (fjárfestingarfyrirtæki hans) 1977 ætti núna 13.258.000 milljónir dollara. Hvað skyldi þetta vera mikil ávöxtun?

Eigum við Íslendingar svona fjárfesta ?

2 ummæli:

Guðmundur D. Haraldsson sagði...

Ertu nú alveg viss um að Berkshire hafi borgað arð nýlega? Í ársskýrslu Berkshire fann ég þessa klausu: "Berkshire has not declared a cash dividend since 1967." (bls 79, hér).

Jón Garðar sagði...

Takk fyrir ábendinguna Guðmundur – og ég biðst forláts á þessari ónákvæmni, sé þetta rétt.

Arðgreiðslur geta reyndar verið í formi hlutabréfa eða annarra eigna – en hugsanlega misminnir mig vegna umræðu um rólegheit Bershire Hathaway í ný-fjárfestingum fyrir nokkrum árum og þeirri stefnu þeirra að hækki markaðsvirði fyrirtækisins ekki – þ.e. gengi þess á markaði – um það sama og innleystur hagnaður, þá greiði þeir sem svarar innleysta hagnaðinum í arð til hluthafa.

Ef þeir hins vegar hafa ekki greitt arð þýðir það væntanlega að gengi bréfa þeirra hefur alltaf hækkað a.m.k. um sömu upphæð og innleystum hagnaði nemur – dollar á móti dollar – sem hlýtur að teljast gott.

Svo öllu sé nú haldið til haga er rétt að geta þess að Bershire Hathaway vinnur að langtímavexti- og arði og hefur minni áhyggjur af skammtímasveiflum. Þannig hækkar gengi þeirra jafnan meira en markaðurinn, þegar markaðurinn er í lægð – en minna en hann þegar hann er í miklum vexti.

Það er hins vegar margt sem sum Íslensku fjárfestingarfélögin gætu lært af Warren Buffett – þó hann sé ekki fullkominn frekar en við hin.

Jón Garðar