mánudagur, 10. desember 2007

Ljótir og leiðinlegir

Í helgarblaði sínu fjallar DV um "raunavetur fjárfesta“ með aðstoð „fjármálasérfræðinga“. Vel skiljanlegt umfjöllunarefni eins og málin hafa þróast á markaðnum og margir áhugaverðir vinklar mögulegir í umræðunni, svo sem:

  • Er í lagi að almenningshlutafélög lækki með þessum hætti á markaði og hvað segir það um stjórnendur þeirra?
  • Hvaða leiðir hafa stjórnendur almenningshlutafélaga til að draga úr áhrifum á markaðssveiflum á sig?
  • Hvernig stendur á því að fyrirtæki sem hafa vaxið á markaði um meira en 50% á ári s.l. þrjú ár (2003-5) lenda strax í miklum vanda ef að þrengir? Tengist það síaukinni skuldsetningu samfara auknu markaðsverðmæti – eða tókst þessum fyrirtækjum ekki að hafa „stjórn“ á væntingum fjárfesta eða tiltrú þeirra á félögunum?
  • Hvar brugðust menn, hvaða röngu ákvarðanir voru teknar?
En er þetta umræðan í DV – sem leidd er af tveimur fjármálasérfræðingum – frá Háskóla Íslands? Nei, aldeilis ekki – sérstaklega ekki það sem haft er eftir Vilhjálmi Bjarnasyni, aðjúnkt við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann segir:

„Við skulum tala mannamál. Þá sem tapað hafa gífurlega miklum fjármunum, er óhætt að kalla lúsera. Ég get ekki ímyndað mér að erlendir eða íslenskir fjárfestar leiti að samstarfi við slíka lúsera.“

Jahá! Faglegra verður það nú varla! Og hér er aðjúnktinn að tala um stjórnendur þeirra fyrirtækja sem á undanförnum árum hafa skapað verðmæti sem fyrirtæki um allan heim öfunda þau af. Af hverju sagði hann ekki bara að þeir væru ljótir og leiðinlegir? Það er að minnsta kosti á sama faglega grunninum.


Er þetta leiðin sem Háskóli Íslands ætlar að fara til að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi – eða gleymdist kannski eitt núll í þeirri yfirlýsingu?

Engin ummæli: