miðvikudagur, 5. desember 2007

Áfram niður .. eða upp ?

Á 14 ára tímabili hlutabréfamarkaðarins hefur einu sinni orðið verulegur samdráttur (2000-1) á honum á ársgrundvelli og á öðrum tíma hægði vel á vextinum (1997-8) en árin 1996 og 1999 var mikill vöxtur, rétt eins og á árunum 2003-5. Hlutabréfamarkaðurinn hefur sem sagt sveiflast frá því hann myndaðist árið 1993.


Á þessu ári hefur markaðurinn lækkað mjög mikið frá miðju ári, en fram að því hafði hann hækkað töluvert.

Árin 2003-5 hækkaði úrvalsvísitalan yfir 50% hvert ár en í fyrra hægði verulega á vextinum og í ár er hann enn minni – enn sem komið er. Þessi mikli vöxtur 2003-5 hefur skapað mörgum fyrirtækjum mikil verðmæti og fjárfestar hafa verið ólmir í að verða virkir á þessum „sexy“ markaði. Við slíkar aðstæður reisir hann sig gjarnan meira en innistæða er fyrir og því er hægari vöxtur í kjölfar svona tímabils kannski ekki óeðlilegur.

Markaðurinn er líka mjög einsleitur, þ.e. hann er mjög háður sveiflum einnar atvinnugreinar. Hér áður fyrr sveiflaðist allt eftir fiskgengdinni en nú er það fjármálageirinn sem hefur áhrifin. Fjármálageirinn hefur staðið sig vel s.l. ár og verðmætaaukningin þar er margföld. En vegna tengslna hans við aðra markaði sem nú fara niður, og sumpart vegna áhættusamra fjárfestinga, þá sígur gengi hans núna – og um leið alls markaðarins. Niðursveiflur á erlendum hlutabréfamörkuðum eru t.d. beintengdari íslenska markaðnum núna en þær voru árin 2000-2001.

En hvað gerist fram til áramóta? Heldur úrvalsvísitalan áfram að lækka, sem gerir hægan vöxt að samdrætti? Eða hækkar hún um einhver prósent og endar kannski á svipuð – hógværum - hækkananótum og 2006?

Svo er spurning hvort markaðurinn hagi sér með svipuðum hætti í byrjun nýs árs og hann hefur gert síðastliðin tvö ár – með snarpri hækkun fram eftir fyrri hluta ársins? Telji einhver það líklegt, er hugsanlegt að sá hinn sami sjái kauptækifæri víða það sem eftir lifir árs.

Þegar þetta er skrifað verður það hins vegar að teljast frekar áhættusöm hugsun, þó sagan bendi til þess að markaðurinn eigi ekki eftir að lækka mikið meira. Árangursríkustu fjárfestar heims (t.d. Warren Buffett) hafa hins vegar sérhæft sig í að kaupa í fyrirtækjum þegar þau eru sem lægst eða verðminnst – og sína oft mikla biðlund við að bíða eftir lægðinni, og hagnast svo vel á uppsveiflunni. Sem alltaf kemur eftir lækkanir sem þessar. Spurningin er bara hvenær?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er hins vegar frekar pirrandi að vídeóleiguheilkennið komi upp aftur og aftur í okkur.
Alltaf endum við með öll eggin í sömu körfu - allir fara að gera það sama og þegar hin hefðbundna átta ára sveifla beinir viðkomandi bransa niður á við fer allt á vonarvöl.
Þá rjúka menn til og finna eitthvað annað og allir rjúka í það. Orkubransinn?
Á meðan drabbast drifkraftur miðstéttarinnar niður, litlu og meðalstóru fyrirtækin sem skapa störfin. Þau fá enga athygli af því að 'dílarnir' eru ekki nógu stórir eða ekki í geira sem er í tísku þá og þá stundina.
Hvað heldurðu að gerist á næsta ári þegar bankarnir fara að spara eftir að M&A tekjurnar þeirra þurrkast upp út af skorti á lánsfé? Hvað heldurðu að margir fjármálarar þurfi allt í einu að finna sér vinnu?
Og ég er hræddur um að gengi þeirra eigi eftir að fara neðar áður en það þokast upp aftur, þar sem þeir hafa verið að fá tekjurnar sínar og hagnaðinn af því að allt gangi smurt og að þeir séu aðeins sneggri en hinir. Núna er smurolían á þrotum og fyrirsjáanlegur nokkurra mánaða skortur á henni - og hvað verður þá um 1. ársfjórðung næsta árs? Eða 2.?