miðvikudagur, 9. janúar 2008

Tækifæri verkalýðshreyfingarinnar ?

Stundum hefur manni fundist jafnvægi óttans ríkja á vinnumarkaðunum – ekki síst þegar rætt er um að stíga einhver alvöru skref til að bæta stöðu þeirra sem verst eru settir.

Jafnvægið einkennist af því að enginn þorir að gera neitt til að rugga stöðugleikanum góða – og óttinn er við útmálaðar afleiðingar ef einhver skref eru stigin úr rammanum sem við erum í. Það merkilega er, að þrátt fyrir hógværð og undirgefni verkalýðshreyfingarinnar undanfarin ár – í þágu stöðugleikans – þá hefur enginn stöðugleiki verið hér í nokkur misseri – og dugar þá ekki annað en að hugsa til verðbólgunnar (+7%) og vaxtanna.

Þessir tveir höfuðmælikvarðar stöðugleikans hafa gefið óstöðugleika til kynna í langan tíma.

Nú er atvinnulífið í lægð – eða kannski ekki rétt að segja lægð, mörg félög er í góðum rekstri en staðan er viðkvæm. Þegar fyrirtækin voru sterk og full sjálfstrausts fannst manni eins og orð verkalýðshreyfingarinnar hefði engin áhrif – fyrirtækin voru með völdin.

Ef ég væri verkalýðshreyfing og mitt meginmarkmið væri að bæta kjör þeirra lægst launuðu – já, þá myndi ég jafnvel velta fyrir mér hvort ekki væri lag einmitt núna til að sýna hörku – jafnvel allt að því að dusta rikið af verkfallsvopninu góða. Fyrirtækin vilja það síst af öllu núna – og ekki nýja ríkisstjórnin.

Það væri að vísu ekki gott fyrir stöðugleikann – en hann getur varla versnað mikið – og óstöðugleikinn undanfarið hefur ekki auðveldað líf þeirra allra verst settu – þrátt fyrir undirgefnina góðu. Og ekki olli sá hópur vandanum, svo mikið er víst.

Já, hefur verkalýðshreyfingin þann kjark sem þarf til að standa í baráttu misskiptingarinnar ?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

7% verðbólga hefði nú verið flokkað sem stöðugleiki fyrir tíma þjóðarsáttarinnar. Þá vorum við að tala um allt aðrar verðbólgutölur. Það er ekki skynsamlegt fyrir neinn að fara í þann slag.
Nýtt skattþrep var ekki góð hugmynd. Flækir skattkerfið með tilheyrandi kostnaði og glufum fyrir óprúttna aðila að troða sér ofan í. Það er sérstaklega vont þegar einstaklingar eru nálægt mörkum lægra þrepsins og þess hærra.
Þú kannski hækkar þú um 20 þús. í launum en útborguð laun lækka um 30 þús. því þú nú er reiknaður hærri skattur af heildarlaununum þínum.
Ef fólk vill koma þessum peningum á réttan stað þá þarf það að gerast í gegnum húsaleigubætur, vaxtabætur, barnabætur o.þ.h. Þær eru tekjutengdar fyrir þannig að hægt er að beina upphæðunum beint á þann hóp sem á að fá þær.