miðvikudagur, 9. janúar 2008

Áskorun

Fátt er virðingarmeira en fólk sem tekur ábyrgð á eigin mistökum og hvorki felur þau né veltir afleiðingum þeirra yfir á aðra.


Nú hefur Húsafriðunarnefnd lagt til við menntamálaráðherra að húsin við Laugaveg 4 til 6 verði friðuð. Þegar fjallað var formlega um framtíð húsanna á sínum tíma fékk Húsafriðunarnefnd tækifæri til að gera þetta að tillögu sinni en gerði ekki. Í lok þess ferlis fengu síðan eignaraðilar húsanna öll tilskilin leyfi til að rífa húsin og byggja ný.


Nefndinni hefði verið nær nú að gangast við og taka ábyrgð á eigin mistökum – ef það voru þá mistök – að gera ekki þessa tillögu þegar hún var með málið í formlegri afgreiðslu á sínum tíma. Nei, teikningar af þeim húsum sem byggja á í staðinn kalla á friðun þessara húsa og afleiðingarnar lenda á eigendum húsanna, sem þó voru með öll leyfi – nú eða okkur skattborgurum ef til skaðabóta kemur.


Það er rétt að skora á menntamálaráðherra að hafna tillögu nefndarinnar og halda þannig bæði mistökum þessa máls og afleiðingum þeirra innan opinbera kerfisins – ég er ekki viss um að mikill söknuður verði af blessuðum húsunum.


Svo skilur maður ekki í hvaða leiðangri Dagur borgarstjóri var þegar hann nánast stekkur fram fyrir niðurrifsgröfuna og kemur þessu öllu af stað. Er þetta stíll nýja meirihlutans – óútreiknanlegar ákvarðanir ofan í fyrri ákvarðanir?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alveg eins og talað út frá mínu hjarta. Það hefur vantað alla skinsemi í þessa umræðu. Þetta mál eins og önnur á að fylgja stjórnsýslu ferlinu, sem síðan á ekki að breyta eftirá.

Síðasta fólkið sem á að hlusta á í þessu máli eru þeir sem opinberað hafa sjálfansig sem einhverslags bárujárnsfasista.