þriðjudagur, 4. desember 2007

FL Group : Styrkleikamerki

Miklar vangaveltur eru um áhrifin af forstjóraskiptum og styrkingu á FL Group með aukinni aðkomu Baugs.

Með réttu eða röngu hefur ásýnd Hannesar hægt og rólega farið að einkennast af mikilli áhættusækni og glamúrlífi. Nýi forstjórinn er – að minnsta kosti við fyrstu sýn – andstæðan við það. Jarðbundinn, yfirvegaður og lítur út fyrir varkárni.

Aukin tengsl við fasteignaarm Baugs mun auka tiltrúna til skemmri og lengri tíma enda fasteignir almennt taldar með því stöðugasta sem hægt er að komast í. Á sama tíma er hlutaféð aukið.

Er FL Group veikara eða sterkara eftir þetta – er þetta upphafið að erfiðri jarðaför félagsins eða endirinn á vantrú markaðarins á framtíðaráform félagsins? Ekki er gott að segja svona í miðjum storminum, en ég hallast að því að á markaðnum verði þetta túlkað sem styrkleikamerki.

Ég er sammála því sem kom fram hjá Óla Birni Kárasyni í Kastljósinu í kvöld. Markaðurinn hefur verið að refsa FL fyrir tapið á 3. ársfjórðungi – og greinilega þvingaða sölu á AMR – undanfarnar vikur. Hugsanlega verða markaðsaðilar fegnir að allri óvissu er eytt og búið er að styrkja félagið með hlutfé auk þess sem fjárfestingaáhættan er minnkuð með fjárfestingum í fasteignafélögum. Og svo er Hannes farinn.

Með góðar undirliggjandi eignir FL (t.d. Glitnir) yrði ég ekki hissa þó fegins andvarp heyrðist einhvers staðar á næstu dögum í kjölfar þessa. Og þá er kannski stutt í að FL Group verði að vænlegu kauptækifæri – en líklega ekki alveg strax.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætli ástæðan sé ekki bara helst að finna í því að Landsbankinn vann sína heimavinnu betur en hinir eftir árásir erlendra greiningardeilda á vormánuðum 2006 og er nú með miklu traustari fjármögnun en Kaupthing og Glitnir (þ.e. fjármagnar sig meir á innlánum) og því ekki eins næmur gagnvart því vaxtaálagi sem bankarnir þurfa sætta sig við á erlendum fjármagnsmörkuðum þegar endurfjármögnunar er þörf. Óvissan er því minni. Ennfremur má benda á að Glitnir var sennilega töluvert ofmetin áður en lausafjárkrísan skall á þar sem hann var með óréttlætanlega hátt P/B ratio (markaðsvirði/bókfærðu virði) með tilliti til hinna bankanna. Þetta hlutfall er oftast notað til að bera saman fjárfestingarfélög eða banka. Sömu sögu má segja um FL. Á sínum tíma þegar gengi FL Group var 29 kr. á hlut vildu sumir meina að mögulegt væri að "spegla" eignasafn FL og kaupa það á eigin spýtur á jafnvirði gengisins 21.

Ég vil þó taka fram að þetta eru spekúlasjónir sem ég, í anda FL Group, sel ekki dýrari en ég keypti.

Það er hins vegar gaman að rifja upp spakmæli, sem eiga vel við núna, sem milljarðamógullinn, frumkvöðullinn og sprelligosinn Charles Branson lét eitt sinn hafa eftir sér sem hljóðuðu eitthvað á þennan veg:

"Want to be a millionaire? Be a billionaire and buy an airline".

Góðar stundir
Brenndur fjárfestir