fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Hálf-fimm fréttir kirkjunnar

Ef peningar eru annars vegar stendur ekki á greiningartólum og vísitölum sem nokkrar greiningardeildir fylgjast með og fjalla um daglega. Hálf-fimm fréttir bankanna eru svo sendar þeim sem vilja á tölvupósti – og allir vita hvað er að gerast og geta andað rólega.

En hvað er til staðar þegar kemur að samfélaginu, stöðu þess og þróun? Svarið við því er einfalt - lítið sem ekkert. Jú, stundum koma fram einstaka úttektir á afmörkuðum þáttum samfélagsins – en ekkert heilsteypt. Og svo rífast allir um hvort allt sé gott eða slæmt hér.

Er forgangsröðunin virkilega svona hjá okkur? Peningum þarf að fylgjast með daglega, og jafnvel oft á dag – en gæði samfélagsins skipta ekki máli?

Af hverju búum við ekki til samfélagsvísitölu sem t.d. innheldur fjölda glæpa, upphæðir sem gefnar eru til góðgerðarmála, atvinnuleysi, fjölda fólks undir ákveðnum tekjumörkum, fjölda fólks yfir ákveðnum tekjumörkum, sjálfsmorð, magn þunglyndislyfja ... og bara Guð má vita hvað?

Væri þetta ekki kjörið verkefni fyrir Kirkjuna? Hún gæti sett hluta af sínum krafti í að starfrækja greiningardeild sem tæki saman upplýsingar – sem virðist alveg nóg af – og birti, jafnvel daglega, samfélagsvísitöluna – og gæti svo verið með umfjöllun um þróun hennar og einstaka þætti hennar í Hálf-fimm fréttum Kirkjunnar.


Ég myndi lesa þær fréttir.

4 ummæli:

Málfundafélagið Sölkurnar sagði...

Takk fyrir ábendinguna. Ég starfa á biskupsstofu og mun vissulega benda fólki á þessa hugmynd. :-)
Vek athygli á að þó að kirkjan hafi ekki hálf-fimm fréttir þá sendir hún út orð dagsins og bæn og er hægt að skrá sig fyrir þeirri þjónustu á http://tru.is/almanak.

Jón Garðar sagði...

Ég veit að kirkjan er að gera marga góða hluti - þekki það frá því ég vann verkefni fyrir skömmu með einum söfnuðinum.

Þá komst ég m.a. að því að kirkjan er einskonar falið leyndarmál fullt af gersemum sem þetta kapphlaupsþjóðfélag ætti að vita meira um og nýta.

Jesú var nú einu sinni svolítið í því líka að bæta (gæði) samfélagið - er það ekki ?

Nafnlaus sagði...

Vil benda þér á að samfélagsvísitala er í vinnslu, aðallega jafnréttisvísitala. Sjá:
http://www.tft.gender.is/default/tft
Kristín

Jón Garðar sagði...

Bara besta mál - ég held að vísitala sem gefur vísbendingu um stöðu samfélagsins og tekur þá tillit til fleiri þátta væri líka áhugavert .. og kannski stýrandi, eins og vísitölum hættir til.

Takk fyrir ábendinguna.
Jón Garðar