sunnudagur, 6. janúar 2008

Stal Te og Kaffi Súfistanum ?

Nú er búið að loka Súfistanum á Laugavegi (fyrir ofan Mál og Menningu). Þar með lokar fyrsta bókakaffihúsið á Íslandi og eitt af vinsælustu kaffihúsum á landinu. Auðvitað koma kaffihús og fara og við því er lítið að gera. Í þessu tilfelli er hins vegar ekki um neitt slíkt að ræða heldur er einn af helstu keppinautum hans að reka hann út svo hann geti sjálfur verið þar með kaffihús.

Já, Súfistinn vildi ekki fara og ekki keypti húsráðandinn (Penninn) reksturinn, heldur var leigusamningi hans bara sagt upp – og það í þeim tilgangi að koma Te og Kaffi fyrir!

Te og Kaffi fær því eina bestu kaffihúsastaðsetningu landsins – sem Súfistinn hefur skapað – og Súfistinn virðist ekkert fá fyrir sinn snúð – hent út með leyfi hæstaréttar. Annað hvort er hæstiréttur að gera mistök eða að lagaumhverfi (réttindi) leigutaka í rekstri er meingallað. Ég er viss um að við þurfum að fara ansi langt – landfræðilega – til að finna svona meðferð á leigjendum.

Og þetta gerist þrátt fyrir að Súfistinn hafi verið með gildan leigusamning til 2013 (gerður 2003). Og meira að segja eftir þann tíma ætti almenna reglan að vera sú að vilji leigjandinn vera áfram með sama rekstur þá verði leigusalinn að leigja honum áfram – ekki nema að taka eigi húsnæðið til annarra nota eða leigusamningur hafi ekki verið virtur. Ástæðan er einföld. Hluti af verðmæti kaffihúsa er staðsetningin enda segir sig sjálft að t.d. Sólon væri mun verðminna ef það yrði flutt í Kópavog. Auðvitað hefði Penninn átt að kaupa Súfistann – þó ekki væri nema samkvæmt verðmati óháðs aðila. Annað er bara þjófnaður!

Og auðvitað hefur þetta ekkert með það að gera að Penninn á Te og Kaffi. Og það er auðvitað bara hrein tilviljun líka að Penninn segir leigusamningi Súfistans upp í september 2006 – og kaupir í Te og Kaffi í september 2006.

Nú er bara að vona að húseigendum Kaffitárs og Sólon í Bankastræti – nú eða Cafe París í Austurstræti - detti ekki í hug að henda leigjendum sínum út, mála, skipta um innréttingar kannski og opna svo aftur sitt eigið kaffihús. Þau virðast nefnilega geta það – og þetta eru flottar staðsetningar.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef ég man rétt þá var það einmitt það sem gerðist á sólon fyrir nokkru. Það var þegar rekstraraðilum sólon Íslandus var hent út og húseigendur opnuðu kaffihúsið Hús Málarans, ef ég man rétt þá gekk sá rekstur illa þar sem húseigendur kunnu lítið í rekstri veitingahúsa. Mig minir að það hafi orðið dómsmál út af því máli því húseigendur vildu nota Sólons nafnið.

Nafnlaus sagði...

Þetta kallast hel***** siðleysi á góðri íslensku.

Algjörlega óþolandi að þetta skuli geta viðgengist. Þessi drengur mun ekki kaupa einn einasta espresso hjá þessu frauðfyrirtæki.

Nafnlaus sagði...

Kosturinn við súfistann sáluga var staðsetninginn, nálægðin við bókabúina og ekkert annað, ekki kaffið eða sú alúð sem sett var í reksturinn. Sem fastagestur get ég staðfest það að það var alla tíð hálfgerður losarabragur á rekstrinum borðin alltaf laus og ruggandi og losararbragur á öllu. Héld að ég hafi séð eigandnn tvisvar þarna á staðnum þau tíu ár sem hann var starfandi.Nú þegar sami aðili er eigandi að bókabúðinn og te og kaffi þá tel ég mjög eðlilegt að þeir vilji taka yfir reksturinn og munu eflaust gera það miklu betur

Nafnlaus sagði...

Ég er mjög ánægð með þetta og tek nýjum rekstri fagnandi!

Nafnlaus sagði...

Þetta er náttúrulega bömmer fyrir Súfistann,en samkv. viðtali við eiganda,þá er þeim umhugað að finna rétta staðsetningu fyrir Súfistann í nánum tengslum við bækur og menningarstarfsemi!
Hvað með Bókaverslun Steinars,sem var seld á dögunum og nýr eigandi þegar í bókabransanum?
Bara hugmynd!!!!

Nafnlaus sagði...

Tek það fram að ég tengist ekkert Pennanum nema að því leyti að ég þekki aðeins til aðila sem vinnur hjá þeim. Þeir voru búnir að reyna mikið að ná samningum við eigendur Súfistans en þeir voru ekki til í að lenda málinu á nótum sem hefðu getað talist sanngjarnir. E.t.v. má segja að það hefði mátt notast við "óháða matsaðila", þó þeir virki nú ekki heldur alltaf vel, en þetta endaði í þessum farvegi því miður.

Nafnlaus sagði...

Í bloggi þínu segir m.a. um tilefni þess að Penninn yfirtók rekstur kaffistofunnar á Laugavegi 18:

“Og þetta gerist þrátt fyrir að Súfistinn hafi verið með gildan leigusamning til 2013 (gerður 2003).”

Mér fannst skrýtið að sjá slíka afgreiðslu Hæstaréttar á löglegum leigusamningi. Ég fletti því upp dómi Hæstaréttar. Þar segir m.a.:

“Í 3. gr. samningsins segir að samningurinn sé gerður til 10 ára en hann sé „þó uppsegjanlegur af beggja hálfu með sex mánaða fyrirvara.“”

Af hverju skýrir þú rangt frá um efni samningsins?

Jón Garðar sagði...

Ég er ekki að gagnrýna að Penninn skuli hafa sagt Súfistanum upp leigusamningnum – ég er að gagnrýna að það skuli gert til að afhenda staðinn keppinauti Súfistans í sama rekstri.

Ekkert hefði verið óeðlilegt við þetta ef Penninn hefði ætlað að taka húsnæðið t.d. undir bókaverslunina enda er þá um önnur not að ræða. Ég er að gagnrýna réttindaleysi leigjandans sem ekki bara missir reksturinn á þessum stað, heldur þarf að horfa upp á keppinautinn taka við staðsetningunni án greiðslu.

Víða erlendis er litið á þá sem leigja út húsnæði sem hluta af sérstakri atvinnugrein sem er fyrst og fremst í þeim bisniss að leigja húsnæði. Ætli leigusali þar að halda áfram að leigja húsnæði undir sömu atvinnugrein hefur sá sem er þegar í því forgang til leigu þar enda hefur hann ávinning af staðsetningunni – og skaðast þar af leiðandi af flutningi þaðan.

Uppsagnarákvæðið er aukaatriði í þessu uppleggi mínu enda segi ég í færslunni að „meira að segja eftir þann tíma [2013] ætti almenna reglan að vera sú að vilji leigjandinn vera áfram með sama rekstur þá verði leigusalinn að leigja honum áfram – ekki nema að taka eigi húsnæðið til annarra nota eða leigusamningur hafi ekki verið virtur.“

Tímalengd leigusamninga og uppsagnarákvæði er eðlilegt en þá eingöngu til að losa sig við leigjendur sem ekki standa við leigusamninga eða til að losa sig við þá til að taka húsnæðið til annarra nota.

Það er eðlilegt að húseigendur ráði því hvaða starfsemi er í húsnæði þeirra – en það er ekki eðlilegt að húseigendur geti kippt fótunum undan rekstri fyrirtækja – í þjónustu keppinautana.

Ef lögin heimila þetta, er auðvitað við þau að sakast en ekki Pennann. Hins vegar er athyglisvert að Héraðsdómur dæmdi Súfistanum í vil en Hæstiréttur Pennanum – þaðan kemur vangaveltan um mistökin. Siðferðilega hliðin á þessu er hins vegar ekki með Pennanum – vonandi þarf Penninn aldrei að upplifa það að verða sagt upp leigusamningi svo að húsráðandi geti leigt t.d. Office 1 eða Griffli plássið.

Ég minni á að kaffihús er ekki bara venjulegt fyrirtæki – kaffihús er fyrirtæki þar sem neytendur koma og neyta vörunnar og þjónustunnar á staðnum. Það er lykilatriði. Þegar það þarf að flytja hverfur eitt af lykilatriðum þess í rekstri og oft grundvöllur þess.

Ég er ansi viss um að það myndi syngja hressilega í einhverjum ef t.d. Nýsir segði World Class upp í Laugum til að leigja Hreyfingu í staðinn – ja, bara af því að þeir eru hrifnari af rekstrarhugmyndum þeirra. Svo yrði líklega allt brjálað ef í ljós kæmi að Nýsir ætti Hreyfingu!

Nafnlaus sagði...

Hvernig komst súfistinn þarna inn til að byrja með ?
þeir duttu alla vega í lukkupottinn, alltaf fullt þrátt fyrir óheyrilega hátt verðlag, ekki tel ég að fólk hafi sótt staðinn vegna þess að kaffihúsið væri svo gott per se heldur vegna nábýlisins við bókabúðinna þetta viðskiptamódel, þ.e. sambýli kaffihúss og bókabúðar, er að bandarískri fyrirmynd eins og merki súfistans. ..
vantaði Mál og menningu ekki bara eitt stk. Starbucks
og þeim var boðin aðstaðan. ég byði ekki allvega ekki í það ef bókabúðin færi og súfistinn sæti eftir með sín völtu borð og alltaf allt í drasli.