föstudagur, 7. desember 2007

Sófakynslóðin

Uppgangurinn á Íslandi undanfarin ár hefur varað lengi og í raun hefur heil kynslóð af stjórnendum komið á vinnumarkaðinn sem þekkja ekkert annað en góða tíma. Aðalverkefnin einkennast þá af því að bregðast við mikilli eftirspurn og stækka hraðar en keppinautarnir. Aðgangur að fjármagni er góður og eitt erfiðasta verkefnið er að fá nógu mikið af góðu fólki til að sinna öllum vaxtarverkefnunum.

Sumir kalla þennan hóp sófakynslóðina sem byggist á því mjúka lífi sem það er vant og alið upp í. Hér erum við auðvitað að tala um unga öfluga fólkið sem hefur komið út á markaðinn s.l. 7-8 ár og margt gert góða hluti.

Þó ég vilji ekki meina að kreppa sé í íslensku viðskiptalífi – bara alls ekki – þá eru samt aðrir tímar nú þegar hlutabréfamarkaður hækkar ekkert á milli ára – tímar sem mætti líklega kalla samdrátt, ef ekki meira. Við þessar aðstæður eru aðrar áherslur í stjórnun nauðsynlegar og þar af leiðandi aðrir eiginleikar stjórnenda. Aukið aðhald, sparnaður og jafnvel hagræðing með kostnaðarlækkunum fylgja stundum svona tímabilum.

Þá vaknar sú spurning hvernig sófakynslóðinni muni ganga að bregðast við þessum nýju – áður óþekktu aðstæðum? Kannski fáum við að sjá það – þó við vonum auðvitað ekki.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góðir og uppbyggilegir pistlar hjá þér. Anægjulegt að sjá einhvern með fullu viti blogga.

Nafnlaus sagði...

Tek undir með síðasta ræðumanni! Þú ert í uppáhaldi hjá mér :)

Nafnlaus sagði...

Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá þér. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig þessari kynslóð mun takast til þegar niðursveiflu verður vart.

Það að kann að hljóma nokkuð undarlega en fyrirtækjarekstur er ekki síður erfiður þegar vel árar frekar en þegar skórinn kreppir. Áherslurnar eru einungis aðrar. Með einföldun má segja að þegar vel gengur er frekar lögð áhersla á tekjuhlið rekstursins en kostnaðarvitund kann að minnka, í sumum tilvikum hreinlega hverfa. En þegar hægja tekur á, kunna menn að snúa áherslum sínum í auknum mæli að kostnaðarhliðinni.

Í því samhengi má benda á umræðuna um rekstrarkostnað FL Group undanfarið, sem þó kom ekki illa við kaunin á neinum þegar vel gekk, án þess þó að ég ætli að leggja sérstakt mat á þann kostnað hér.

En svo við snúum okkur aftur að “sófakynslóðinni”.

Það er eðlileg þróun, eins og sagan hefur sýnt vestanhafs, að margar "stjörnur" viðskiptalífsins falla í skuggan og aðrar koma í staðinn þegar rekstrar- og efnahagsumhverfi breytist. Ástæðan liggur einfaldlega í ólíkum hæfileikum. Má líkja þessu við fótboltaleik þar sem lið þarf annað hvort, vegna eðli andstæðingsins, að spila varnar- eða sóknarleik. Slíkt getur haft úrslitaáhrif um það hver sé valinn maður leiksins!

Stóra spurningin er því hvort að "sófakynslóðin" eigi einhverja hæfileikaríka varnarmenn, eða hvort að íslenskir leikmenn séu jafn sterkir hvoru megin vallarhelmingsins. Ég er það "illa innrættur" að ég sé tækifæri bæði þegar vel árar sem og þegar illa gengur. Og ég tel að það séu tækifæri fyrir margan einstaklinginn á næstu misserum sem spilar öðru vísi “bolta” heldur en núverandi riddaralið íslensku útrásarinnar.

Það hefur ekki verið vinsælt undanfarið, jafnvel hálf hallærislegt, að tala um kostnaðaraðhald, birgðastjórnun og önnur skyld fræði. Það er slæmt því með góðu aðhaldi er hægt að skapa gríðarleg verðmæti. Eins og oft er sagt, þá er vörn besta sóknin. Ég er þó ekki að halda því fram að þessir hlutir hafi verið neitt stórlega vanræktir í rekstri fyrirtækja hér, þó alltaf megi betur gera. En mín tilfinning er þó að margir meðlimir "sófakynslóðarinnar" finnist þetta frekar óspennandi, jafnvel óþarft viðfangsefni. Það mun vafalaust breytast – fyrr en síðar.

En ég tek einnig undir með fyrri ræðumönnum. Skemmtilegur penni eins og ég hef sagt áður.

E.S. Ég hef engan áhuga á fótbolta ásamt því heyra tæknilega undir skilgreininguna á “sófaskynslóðinni”.