fimmtudagur, 6. desember 2007

Aldrei rétti tíminn

Fallega fólkið

Líklega eru flestir sammála því að meðal-Íslendingurinn hafi það gott. En ekki er samt gott að vita af tugum þúsunda Íslendinga sem ekki hafa það gott og meðan hinn tuga þúsunda hópurinn er í góðum málum. Það er reyndar sá hópur sem oftast hefur orðið þegar talið berst að stöðu fólksins sem býr hér og sá hópur er oftast á því að þetta sé nú bara allt í lagi - svolítið eins og fallega fólkið, sem er eina fólkið sem segir að það skipti ekki máli að vera fallegt – en það hefur aldrei prófað að vera ljótt.

Samanburður hættulegur

Þetta er líka fólkið sem grípur í samanburð t.d. við önnur lönd til að sýna fram á að þetta sé nú bara þokkalegt hér. Samanburður er hættulegt verkfæri og á aldrei að nota nema til að gæjast á stöðu mála gagnvart öðrum - aldrei til að réttlæta eigin stöðu. Eini samanburðurinn sem á að nota er sá sem sýnir hvernig staða mála er miðað við fyrri stöðu – hvernig ert hún í dag miðað við síðast (betri, verri, eins?).

Ef einblínt er á eigin stöðu og kappkostað við að bæta hana er líklegt að árangur verði mun meiri en hjá þeim sem einblína á samanburð við aðra.

Ýmist of gott eða of slæmt

Upp úr aldamótunum (1999/2000) þurfti sannarlega að kveikja í atvinnulífinu eftir mögur ár – og það var gert með myndarbrag. Umhverfi fyrirtækja hefur tekið verulegum framförum s.l. ár enda eru „fyrirtækin okkar“ að sigra keppinautana út um allan heim.

En nú hlýtur að vera komið að fólkinu. En þá kemur „fallega fólkið“ í hrönnum og segir að þetta sé nú allt í lagi, skattkerfið sé gott og einfalt og með ótrúlegum sannfæringarkrafti talar eins og skattkerfið sé meitlað í stein sem helst megi ekkert höggva í. Meira að segja okkar ágæta Viðskiptablað segir s.l. föstudag að stéttarfélögin „þyrftu að miða aðgerðir sínar við lögin í landinu, í stað þess að lögin í landinu séu látin miðast við aðgerðir þeirra“.

Við eigum sem sagt að þjóna skattkerfinu – en það ekki okkur. Það er slæmt þegar fólk fer að trúa því að kerfi eins og skattkerfið – sem meira að segja er búið til að fólki sem er mistækt eins og við öll – sé komið til að vera, heilagt. Hefði þetta sjónarmið ráðið ríkjum s.l. 10-15 ár er ég hræddur um að umhverfi fyrirtækja hefði tekið litlum breytingum til batnaðar.

Nú tala allir um að ekki sé rétt að lækka skatta, fara þurfi varlega vegna efnahagsástandsins. Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, talar um að kerfið eigi að vera einfalt – sem er ábyggilega rétt þó það geti ekki verið markmið út af fyrir sig – kerfið hlýtur fyrst og fremst að eiga að skila árangri.

Einu sinni hlustaði ég á Pétur Blöndal (fyrir nokkrum árum) flytja erindi um skattamál þar sem ég var að vinna. Hann færði skemmtileg rök fyrir því að það skipti engu hvert ástandið væri – það kæmu alltaf upp raddir, ekki síst meðal stjórnmálamanna og sérfræðinga – um að nú væri ekki rétti tíminn til skattabreytinga eða lækkanna. Ástandið væri annað hvort svo gott að ekki mætti lækka skatta af því það myndi ýta undir frekari þennslu – eða að ástandið væri það slæmt að ekki mætti lækka skatta vegna tekjuöflunar ríkissjóðs. Ég held að þetta sé einmitt málið núna – alvöru skattalækkanir á almenning virðast meðhöndlaðar með þessum rökum.

Stéttarfélögin standa núna frammi fyrir alvöruverkefni og þurfa að hafa sjálfstraust til að finna færar leiðir til að koma málum þeirra sem minnst hafa eitthvað áleiðis. Hefðundnar aðferðir þeirra eru því miður líklegar til að skila hefðbundum árangri – leita þarf í aðrar áttir. Það má ekki gleymast að innbyggð keðjuverkun launasamanburðar innan þeirra eigin kerfa er það sem ýtir alltaf sjálfsögðum launaleiðréttingum þeirra sem skrapa botninn – upp eftir öllum stiganum. Hafa íslensk stéttarfélög það sjálfstraust sem þarf til að klára málið?

Ég er þeirrar skoðunar að ekki þurfi að taka neitt af neinum þó áherslur næstu 5 ára verði á að laga aðstæður þeirra sem mest þurfa á því að halda. Við getum það – þurfum bara að vilja það í raun og veru. Kannski væri best að byrja á að setja ný markmið sem tala til okkar með skýrum hætti – á mannamáli – um hvaða árangri við viljum ná á næstu 5 árum fyrir þann hóp sem þarf mest á lagfæringum að halda. Ef allir verða sammála skýru markmiði sem segir öllum nákvæmlega hvert á að fara – þá næst það mun frekar.

Hvernig væri nú að pólitíkusar að minnsta kosti kíktu upp fyrir box-brúnina - ég tala nú ekki um, stykkju upp úr fjandans boxinu sem margir virðast vera í – og finndu leiðina til að laga nú almennilega óviðunandi aðstæður allt of margra. Hugrekkið til að fara leiðina er auðveldara að finna, ef sannfæringin fyrir leiðinni er algjör.

Það hlýtur að vera leiðinlegt fyrir allt þetta góða fólk í pólitíkinni, að sitja hugsanlega uppi með þá sjálfsmynd að hafa í raun litlu breytt til batnaðar hjá þeim sem helst þurfa á þeim að halda – þó mikið sé á sig lagt við að reyna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð hugvekja. Vek athygli þína á að suma stjórnmálamenn má dæma af verkunum. Forgangsröðun Samfylkingarinnar birtist í aðgerðaáætlun í málefnum barna sem samþykkt var í sumarbyrjun og svo nýkynntar metnaðarfullar ákvarðanir í málefnum eldri borgara og öryrkja. Samtals getur þetta verið pakki upp á um 10 milljarða á ári þegar allt verður komið til framkvæmda. Og við erum rétt að byrja.

Jón Garðar sagði...

Takk fyrir ummælin Árni, gaman að sjá þig hér.

Ég er á því að við eigum marga stjórnmálamenn sem eru líklegir til að láta þessi mál til sín taka - og held einmitt að nýkrýndur ríkisstjórnarflokkur Samfylkingarinnar innihaldi marga vænlega - þar gæti ég m.a. nefnt þig, Gunnar Svavarsson og fleiri.

Og ég held að það sé laust plássið í hugum almennings fyrir þann stjórnmálamann sem virkilega gerir eitthvað afgerandi fyrir þá sem helst þarf að hugsa um.

Og ég yrði ekki hissa þó sá aðili kæmi úr Samfylkingunni.

Það er rétt að gratúlera ykkur fyrir góðu skrefin í gær - og óska ykkur góðs gengis með framhaldið, enda af nógu að taka.