þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Ráð til femínista .. og hinna

Annars lagið blossa hér upp heitar umræður um jafnréttindi og kvennréttindi þar sem oftast takast á annars vegar harður og fylginn sér kjarni kvenna í hlutverki femínista og hins vegar nokkrir karlmenn.

Karlmennirnir eru oftast ekki þeir sömu á milli „umferða“, en hinn hópurinn samanstendur oft af sömu sjálfskipuðu fulltrúum íslenskra kvenna sem fara fram í nafni femínista og jafnréttis. Afar fáir karlmenn þora út á þann vígvöll sem þessi umræða er, enda gæti viðkomandi verið stimplaður sem and-femínísti og það sem verra er, karlremba sem er á móti jafnrétti. Gæta þarf tungu sinnar.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort hugsanlega sé búið er að skamma íslenska karlmenn svo mikið s.l. ár og áratugi (sem aðferð í jafnréttisbaráttu kvenna) að mörgum þeirra líði orðið eins og sakamönnum - og grípa þá oft til furðulegra raka og varna. Margir þeirra held ég að viti ekki hvernig í raun á að bregðast við þessu – enda er svo sem ekki mikið um praktískar tillögur til batnaðar, eða hvað?

Þó margt hafi batnað í jafnréttismálum s.l. ár og áratugi er ég sammála þeim sem segja að það halli á konur í sumum málum og ég er sammála því að í mörgum þeirra er hægt að gera eitthvað í málinu á meðan önnur liggja kannski að einhverju leyti í eðlismun karla og kvenna. Ég er líka á því að í sumum tilfellum halli á karlmenn t.d. þegar þeir eru einstæðir feður og ég gæti nefnt fleiri hópa eða mál sem færa mætti til betri vegar á Íslandi.

Auðvitað velur fólk bara þær aðferðir sem hentar því og í sjálfu sér er aukaatriði hver hún er svo fremi sem hún meiði ekki aðra – og skili árangri. "Aggressivar" aðferðir í jafnréttismálum voru nauðsynlegar hér áður fyrr en ég hef efasemdir um að þær séu endilega málið núna. Ég er ekki með réttu aðferðirnar en ég er ekki viss um að þessar tveggja fylkinga skylmingar skili árangri.

Ráðið til femínista – og hinna – er frá Dr. Covey R. Covey sem bæði rannsakaði og skrifaði bók um 7 venjur árangursríks fólks, og nota bene með árangursríku fólki á hann við fólk sem nær árangri í lífinu – bæði í vinnu og einkalífi:

"Leitastu fyrst við að skilja aðra og reyndu aðeins þegar það er komið, að fá aðra til að skilja þig".

Já, það er ábyggilega gott að setja sig í spor annarra og sjá hlutina þaðan – ég hefði að minnsta kosti gott af því oftar.


Kannski getum við með þessu komið í veg fyrir að „fylkingarnar“ treysti varðstöðu sína og mikilvæg mál þokist ekkert áfram. Almennt er fólk nefnilega vel meinandi – bæði konur og karlar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið til í þessu hjá þér ;)