þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Lífeyrissjóðir : 30 milljarðar farnir

Athyglisvert er að velta fyrir sér stöðu lífeyrissjóða almennings á hlutabréfamarkaðnum nú þegar hann hefur lækkað um einn fjórða eða rúm 24% frá því hann náði toppi ársins þann 18. júlí 2007.

Ef bara eru skoðaðir eignarhlutir lífeyrissjóða í viðskiptabönkunum þremur (skv lista yfir 20 stærstu hluthafa), þ.e. Landsbanka, Kaupþingi og Glitni, kemur í ljós að í dag virðast lífeyrissjóðir saman eiga rúma 108 milljaðra að markaðsvirði í bönkunum þremur. Ef við gefum okkur að eignarhlutir þeirra hafi verið þeir sömu í júlí s.l. hafa þessir 108 milljarðar verið rúmum 30 milljörðum hærri, þ.e.a.s á rúmum 5 mánuðum hefur eignarhlutur þeirra í þessum þremur bönkum þá lækkað um rúma 30 milljarða.

Stærstu eignina eiga þeir í bankanum sem hefur lækkað mest – eða Kaupþingi þar sem þeir samanlagt eru með rúm 9% – en gengi hans hefur lækkað um 28% frá því það var hæst á þessu ári í júlí. Verðmætarýrnun lífeyrissjóðanna bara í þeim banka einum virðast nema tæpum 24 milljörðum króna.

Kannski er stærsta spurningin núna sú hvað eðlilegt sé að lífeyrissjóðir almennings geri við þessar fjárfestingar sínar við markaðsaðstæður sem þessar ?

Ýmislegt kemur þar til greina.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað ef þú lítur lengra aftur í tímann en 1-2 mánuði. Segjum 1 ár, 2 ár, 3 ár, 4 ár eða jafnvel 5 ár. Hvað hafa innlendu hlutabréfin gert á þessum tíma fyrir lífeyrissjóðina. Það koma alltaf svona niðursveiflutímabil en til lengri tíma litið þá fjárfestu lífeyrissjóðirnir vonandi í þessum félögum af því að starfsmenn sjóðanna hafa trú á þeim.