föstudagur, 16. nóvember 2007

Er Slóvenía fyrirsláttur Símans ?

Í gær tilkynnti stjórn Skipta að hún hefði óskað eftir frestun á skráningu Símans á markað vegna þátttöku sinnar í söluferli á Telecom Slovenije. Það eitt er athyglisvert út af fyrir sig þar sem Skipti keypti félagið 5. ágúst 2005 (á 66,7 makr) m.a. með þeim skilyrðum að (a) ekki minna en 30% í félaginu verði boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007 og (b) að á sama tíma verði Síminn skráður á markað. Geymum það aðeins.

Enn athyglisverðara er að velta fyrir sér orsökum þessa hjá Símanum því ekki eru nema rétt tveir mánuðir síðan Brynjólfur Bjarnason, þáverandi forstjóri, viðraði þá hugmynd (Markaðurinn 12. september 2007) að skráningu kunni að verða frestað – og þá á allt annarri forsendu eða vegna markaðsaðstæðna. Skoðum þessar markaðsaðstæður aðeins:

  • Frá því Skipta kaupir Símann (5. ágúst 2005) hækkaði úrvalsvísitalan mest um 99,7% 18. júlí í sumar. Ef kaupverð Símans er framreiknað út frá því var Síminn orðinn 133,2 makr virði (auðvitað hafa fleiri þættir en úrvalsvísitalan áhrif á verðmæti en notum þessa til einföldunar)
  • Þegar Brynjólfur viðrar frestun vegna markaðsaðstæðna (12. september 2007) hafði úrvalsvísitalan lækkað um 12,7% frá því hún var hæst 18. júlí – og með sömu reikniaðferð hafði verðmætið lækkað um 16,9 makr
  • Í gær hafði úrvalsvísitalan lækkað enn meira eða um 18,8% og verðmætið orðið 25,0 makr lægri en það var 18. júlí 2007 – sé úrvalsvísitalan notuð sem viðmið

Já, markaðsaðstæður voru erfiðar og markaðir „órólegir“ í september, en aðstæður eru enn erfiðari nú.

Er hugsanlegt að almenningur og aðrir fjárfestar verði af milljarða verðmætaaukningu ef skráning frestast og Síminn kaupir í Telecom Slovenije eða úrvalsvísitalan tekur góðan kipp upp á við .. og auðvitað verðmæti Símans ? Er hugsanlegt að markaðsaðstæður séu raunveruleg orsök beiðninnar um frestun – eins og Símamenn sögðu í september ? Eða er þetta bara ótrúleg tilviljun ?

Hvað er rétt að fjármálaráðuneytið geri nú ?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er algjörlega galið ef ráðuneytið heimilar Skiptum að fresta skráningu á Símanum. Ég hvet þig líka til að skoða síðasta uppgjör Símans þar sem öll trixin í bókinni eru notuð til að láta Símann líta vel út. Til dæmis selur Síminn eigendum sínum fasteignir upp á 1300 milljónir til að fegra bókhaldið. Þeir virðast líka leggja sig fram við að fela ljótar tölur eins og veltufjárhlutfall, sem þú þarft að reikna út sjálfur. Skyldi það vera vegna þess að hlutfallið er ríflega 0,5? Mér sýnist fyrirtækið einfaldlega ekki reiðubúið á markaðinn eða þá að eigendurnir greiddu allt of mikið fyrir það á sínum tíma.

Nafnlaus sagði...

Það var sjálfsagt ekki við öðru að búast að þetta yrði samþykkt fyrst óskin var gerð opinber (búið að tryggja niðurstöðuna). Skýringar Símans eru ekki trúverðugar, jafnvel þótt þeir hafi fengið Kauphöllina til að mæla með seinkun. Það er margt gott við Símann, en ef marka má það sem sýnt er af bókhaldinu er þetta ekki góður fjárfestingarkostur.

Nafnlaus sagði...

Veit heldur ekki hvort það er sanngjörn krafa að ýta af stað þvingaðri sölu. Aðstæður á markaðnum ættu að duga sem ástæða til frestunar. Það verður að athuga að ástandið sem er í gangi núna hefur hreinlega aldrei komið upp og það er frekar ósanngjarnt bæði gagnvart kaupendum og seljendum að fara í float eins og er. Málið er að flestir almennir fjárfestar halda að sér höndum og það eru í raun bara stóru playerarnir á markaðnum sem hafa hjarta í að fjárfesta í hlutabréfum eins og er.
Varðandi kaupverðið á Símanum þá held ég það sé hægt að segja það með nokkurri vissu að þá hafi almenningur í fyrsta skiptið í einkavæðingarsögunni hlegið alla leið í bankann.
IG